Umfjöllun og viðtöl: Valur 79 – 90 Tinda­stóll | Stólarnir með pálmann í höndunum fyrir ferðalag til Sauðárkróks

Atli Arason skrifar
Tindastóll vann virkilega sterkan sigur í Origo-höllinni í kvöld.
Tindastóll vann virkilega sterkan sigur í Origo-höllinni í kvöld. Vísir/Vilhelm

Tindastóll vann endurkomusigur gegn Íslandsmeisturum Vals á Hlíðarenda í kvöld. Stólarnir komu til baka eftir að hafa verið átta stigum undir í hálfleik og unnu að lokum 11 stiga sigur, 79-90. Tindastóll getur því orðið Íslandsmeistari í fyrsta sinn ef liðið sigrar næsta leik liðanna, sem fer fram á Sauðárkrók næsta mánudag.

Leikurinn fór frekar jafn af stað en bæði lið skiptust á því að setja stig á töfluna fyrstu rúmu tvær mínúturnar þangað til að Pablo Bertone setti fyrsta þrist leiksins og Valsmenn náðu að skapa sér örlítið olnbogarými sem varð mest sex stig um miðbik fyrsta leikhluta. Þá kveiktu Stólarnir á sér og byrjuðu að raða inn stigum en tíu stiga áhlaup þeirra skilaði því að þeir náðu forskotinu í leiknum í fyrsta skipti þegar skammt var eftir af fyrsta leikhluta. Það voru hins vegar Valsmenn sem áttu lokahögg fyrsta leikhluta þegar Pavlovic raðar niður fimm stigum í röð til að jafna leikinn og fyrsta leikhluta lauk með jafntefli, 21-21.

Kári Jónsson var frábær í öðrum leikhluta.Vilhelm

Annar leikhluti var sýning Kára Jónssonar sem kastaði niður sturluðum þristum trekk í trekk. Eftir tvo þrista í röð frá Kára voru Valsmenn skyndilega komnir með 8 stiga forskot og Valsmenn leiddu allan annan fjórðung þökk sé alls 15 stigum frá Kára þar sem allt sem hann kastaði upp í loftið fór ofan í körfuna. Valsmenn unnu annan leikhluta með sjö stigum, 28-21, og fóru því með sjö stiga forskot í hálfleik 49-42. Tindastóll hitti aðeins úr einni þriggja stiga tilraun af 14 í fyrri hálfleik, á meðan Valsmenn hittu úr sjö af 12.

Ef annar leikhluti var skotsýningin hans Kára þá var sá þriðji leikhluti sýningin hans Adomas Drungilas því Drungilas hitti úr fjórum af fimm skotum sínum fyrir utan teig og dróg lið gestanna áfram í stigaskorun. Ragnar Ágústsson lokaði þriðja leikhluta með því að setja niður þriggja stiga skot úr horninu en gestirnir voru þá búnir að snúa leiknum sér í hag og fóru með fjögurra stiga forskot inn í loka leikhlutan eftir risastóran 11 stiga sigur í þriðja leikhluta.

Fjórði leikhluti var jafn í upphafi þar sem liðin skiptust á því að skora fyrstu tvær mínúturnar áður en það komu tæpar fjórar mínútur af stigalausum kafla. Síðari hluti fjórða leikhluta var svo algjörlega í eigu Tindastóls. Keyshawn Woods skoraði sinn fyrsta og eina þrist í leiknum til að koma Stólunum í tíu stiga forskot þegar lítið var eftir og þá var leiknum nær formlega lokið. Gestirnir juku forskotið sitt um eitt stig í viðbót á síðustu tveimur mínútunum og unnu því leikinn með 11 stigum, 79-90.

Origo höllinn var troðfull í kvöld en það seldist upp á leikinn á mettíma.Vilhelm

Afhverju vann Tindastóll?

Frábær síðari hálfleikur þar sem Stólarnir spiluðu frábæran varnarleik og lokuðu á flest allt sem Valur gerði vel í fyrri hálfleik. 

Hverjir stóðu upp úr?

Adomas Drungilas var algjörlega sturlaður í endurkomu Tindastóls í þriðja leikhluta. Drungilas skoraði alls 18 stig í leiknum, tók átta fráköst og gaf eina stoðsendingu í leiknum. Keyshawn Woods gerði þó gott um betur með því að vera stigahæsti leikmaður vallarins með 21 stig ásamt því að taka sex fráköst og gefa sex stoðsendingar.

Kári Jónsson var stigahæsti leikmaður Vals með 19 stig en 15 þeirra stiga komu í öðrum leikhluta.

Hvað gerist næst?

Liðin munu mætast í fjórða sinn í leik fjögur á Sauðarárkróki, mánudaginn 15. maí. Ef Tindastóll vinnur þann leik munu þeir lyfta Íslandsmeistaratitlinum í fyrsta sinn á heimavelli eftir leikslok.

„Var alltaf að bíða eftir því að við myndum hrökkva í gang“

Finnur Freyr ræðir við sína leikmenn í einu af leikhléum hans í kvöld.Vilhelm

Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari Vals, var eins og gefur að skilja ekki sáttur við leik sinna manna í kvöld.

„Við gáfum þeim of margar auðveldar körfur undir lok fyrri hálfleiks og í byrjun þess seinni. Við vorum að leka of mörgum stigum og á lykil augnablikum gera þeir betur en við,“ sagði Finnur í viðtali eftir leik.

„Það koma augnablik í fjórða sem liðin skiptast á því að klikka og við fáum nokkur góð skot sem fóru ekki ofan í. Maður var alltaf að bíða eftir því að við myndum hrökkva í gang en það bara gerðist ekki.“

Valur var sjö stigum yfir í hálfleik en munurinn hefði hæglega getað verið meiri.

„Við vorum að gera of mikið af mistökum varnarlega í fyrri hálfleik. Við vorum líka að tapa of mikið af boltum þegar þeir ná að ýta okkur út úr okkar hlutum, sem við vitum að þeir eru góðir í. Við vorum bara ekki nógu skarpir í mörgum aðstæðum í kvöld,“ sagði Finnur, aðspurður út í þá hluti sem hefðu mátt fara betur, áður en hann bætti við.

„Það eru ákveðnir hlutir sem þeir gerðu betur en við í kvöld. Við réðum til dæmis illa við varnarpressuna hjá þeim og svo kann það ekki góðri lukku að stýra að klikka á vítaskotum. Þeir voru beittari á lykill köflum og ég var kannski full seinn að grípa í leikhlé þarna undir lokin á leiknum. Stólarnir voru bara beittari og betri í kvöld og þess vegna fór þetta svona.“

Framundan er leikur á Sauðárkróki næsta mánudag sem Valur verður að vinna, ef þeir ætla sér að knýja fram oddaleik um Íslandsmeistaratitilinn.

„Það er bara næsti leikur. Það er auðvelt að fara að hugsa um einhverja stóra hluti, næstu 12 mánuði eða eitthvað svoleiðis. Í lok dags er þetta samt bara einn leikur sem við þurfum að koma okkur inn í og við ætlum okkur að vinna,“ sagði Finnur Freyr að lokum.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira