Skoðun

For­eldrar hafa nú þegar rétt á 20 mánaða leyfi

Ingólfur V. Gíslason skrifar

Nokkur samfélagsleg umræða hefur átt sér stað vegna vanda foreldra sem ekki fá pláss á leikskóla fyrir ung börn sín. Lausnir sem nefndar hafa verið, meðan þess er beðið að sveitarfélög auki framboð á leikskólarýmum, eru lenging fæðingarorlofs og heimgreiðslur. Nú er það svo að auk þeirra 12 mánaða sem foreldrum standa til boða sem fæðingarorlof, eiga foreldrar einnig rétt á 4 mánuðum, hvort um sig, í foreldraorlof. Það orlof má nýta hvenær sem er þar til barn nær 8 ára aldri. Þannig er nú þegar til staðar réttur foreldra til alls 20 mánaða orlofs. Gallinn við foreldraorlofið er sá að enginn réttur til greiðslna fylgir. Dæmi eru um að foreldrar hafi getað samið við atvinnurekanda um einhverjar greiðslur en vafalaust eru þau dæmi fá. Líklegt er hins vegar að ef foreldrar fengju greiðslu í foreldraorlofi væri búið að leysa þann vanda sem fylgir því að illa hefur gengið að brúa bilið frá lokum fæðingarorlofs til leikskóla. Nú eru stéttarfélög landsins að fara í langtímasamninga við atvinnurekendur og stjórnvöld. Hvernig væri að einn liður kröfugerðarinnar væri um greiðslur í foreldraorlofi?

Höfundur er prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×