Handbolti

Tryggvi Garðar úr rauðu í blátt

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tryggvi Garðar Jónsson er kominn til Fram.
Tryggvi Garðar Jónsson er kominn til Fram. vísir/hulda margrét

Handboltamaðurinn Tryggvi Garðar Jónsson er genginn í raðir Fram frá Val. Hann skrifaði undir tveggja ára samning við Fram.

Tryggvi hefur leikið með Val undanfarin ár, bæði með ungmenna- og aðalliðinu. Hann lék meðal annars með Val í Evrópudeildinni og skoraði til að mynda ellefu mörk í seinni leiknum gegn Göppingen í sextán liða úrslitum. Í Olís-deildinni skoraði 31 mark í átján leikjum.

„Mjög gott fyrir okkur að fá leikmann eins og Tryggva til liðs við okkur. Ég hlakka til að vinna með honum enda hefur hann lengi vel verið einn efnilegasti handknattleiksmaður landsins. Auki mun hann fitta vel inn í afreksmannaumhverfið hjá okkur í Fram þar sem hann mun fá að vaxa og dafna sem persóna og leikmaður,“ sagði Einar Jónsson, þjálfari Fram, í fréttatilkynningu frá félaginu.

Auk Tryggva gengur Rúnar Kárason til liðs við Fram frá ÍBV eftir tímabilið. Línumaðurinn Þorvaldur Tryggvason er aftur á móti farinn í Aftureldingu.

Fram endaði í 4. sæti Olís-deildarinnar og tapaði 2-0 fyrir Aftureldingu í átta liða úrslitum úrslitakeppninnar. Þá komust Frammarar í undanúrslit Powerade-bikarins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×