Handbolti

Víkingur einum sigri frá Olís-deildinni

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Víkingar eru aðeins einum sigri frá sæti í Olís-deild karla í handbolta.
Víkingar eru aðeins einum sigri frá sæti í Olís-deild karla í handbolta. Víkingur

Víkingur Reykjavík vann mikilvægan fjögurra marka sigur er liðið heimsótti Fjölni í öðrum leik liðanna í umspili um laust sæti í Olís-deild karla í handbolta á næsta tímabili, 25-29.

Víkingur vann fyrsta leikinn sem fram fór á þriðjudaginn og liðið gat því komið sér í vænlega stöðu með sigri á útivelli í kvöld.

Víkingar byrjuðu leikinn af miklum krafti og skoruðu fimm af fyrstu sex mörkum leiksins. Fjölnismenn vöknuðu þó til lífsins um miðjan fyrri hálfleikinn og skoruðu níu mörk gegn aðeins tveimur mörkum gestanna. Það voru því Fjölnismenn sem fóru með fjögurra marka forystu inn í hálfleikinn, staðan 15-11.

Gestirnir voru þó ekki lengi að snúa taflinu við á ný og þeir voru búnir að jafna metin þegar aðeins rétt rúmar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. Víkingar náðu svo loks forystunni á ný þegar tíu mínútur voru til leiksloka og litu aldrei um öxl eftir það. Liðið vann að lokum fjögurra marka sigur, 25-29, og er nú í kjörstöðu fyrir þriðja leik liðanna sem fer fram á heimavelli þeirra næstkomandi mánudag.

Gunnar Valdimar Johnsen og Arnar Gauti Grettisson voru atkvæðamestir í liði Víkings með fimm mörk hvor, en í liði Fjölnis var Björgvin Páll Rúnarsson markahæstur með sjö mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×