Körfubolti

Katarbúar fá að halda enn eitt stórmótið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tryggvi Snær Hlinason treður boltanum með tilþrifum í leiknum við heims- og Evrópumeistara Spánar. Íslensku strákarnir verða vonandi að berjast um sæti á HM í Katar.
Tryggvi Snær Hlinason treður boltanum með tilþrifum í leiknum við heims- og Evrópumeistara Spánar. Íslensku strákarnir verða vonandi að berjast um sæti á HM í Katar. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Íslenska körfuboltalandsliðið var hársbreidd frá því að tryggja sér sæti á HM í körfubolta sem fer fram í Indónesíu, Japan og Filippseyjum í sumar.

Íslensku strákarnir eiga vonandi eftir að berjast líka um laust sæti á HM eftir fjögur ár.

Í dag kom í ljós að næsta heimsmeistaramót í körfubolta, á eftir þessu í sumar, mun fara fram í Katar árið 2027.

Allir leikirnir munu fara fram í höfuðborginni Doha en öll 32 liðin sem taka þátt þurfa því ekkert að ferðast langt á milli leikja sem er auðvitað kostur.

Þetta er enn eitt stórmótið sem Katar fær því þeir héldu HM í fótbolta í nóvember og desember síðastliðnum en hafa einnig fengið HM í handbolta, HM í frjálsum, HM í fimleikum og HM í sundi svo eitthvað sé nefnd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×