Neytendur

Milljarða­tjón ár hvert fyrir birgja og neyt­endur

Bjarki Sigurðsson skrifar
Karen hefur rekið Kaja Organics síðastliðin tíu ár.
Karen hefur rekið Kaja Organics síðastliðin tíu ár.

Kona sem flytur inn og framleiðir lífrænar vörur hefur tapað þrjú hundruð þúsund krónum á því að rekstraraðili verslunarinnar Frú Lauga er farinn í gjaldþrot. Hún gagnrýnir framkvæmd og regluverk í kringum gjaldþrot verslana og segir neytendur tapa milljörðum á ári vegna þeirra.

Karen Jónsdóttir á og rekur fyrirtækið Kaja Organic. Um er að ræða litla heildsölu sem flytur inn og framleiðir lífrænt vottaða matvöru. Matvara með merki hennar, Kaja, er meðal annars selt í versluninni Frú Lauga við Laugalæk í Reykjavík. 

Eigandi Frú Laugu, fyrirtækið Kvikun ehf., var nýlega tekið til gjaldþrotaskipta. Búið er að skipa skiptastjóra sem sér um búið. 

Þrátt fyrir það eru vörur í versluninni enn til sölu þó að ekki sé búið að borga fyrir þær. Karen segir það fyrirkomulag vera algjörlega út í hött. 

Karen selur lífrænar vörur undir merkinu Kaju.

„Þannig í rauninni er verið að selja vörur frá mér sem er ekki búið að borga, til lífeyrissjóðanna, ríkisins og svona. Ef það væru til peningar fyrir öllum skuldunum þyrfti búið ekki að fara í þrot. Þetta eru gjörsamlega óþolandi vinnubrögð og regluverkið er handónýtt. Það eru alltaf birgjarnir sem eru látnir blæða. Af hverju þurfum við að gera það?“ segir Karen í samtali við fréttastofu.

Sjálf er hún að tapa vörum að andvirði þrjú hundruð þúsund króna en þetta er í fjórða sinn á tíu árum sem hún lendir í því að eigandi verslunar sem hún selur vöru til verður gjaldþrota. Þetta er því alls ekki einsdæmi. Hún telur að þegar allt er tekið saman séu þetta gríðarlegar fjárhæðir sem birgjar og neytendur tapa þar sem á endanum fer þetta út í verðlagið. 

„Þetta er viðvarandi ástand á Íslandi og það þarf að taka fyrir þetta. Þetta hleypur ábyggilega á milljörðum á ári. Hvert einasta gjaldþrot er hrikalega dýrt,“ segir Karen. 

Hún segir að það væri eðlilegast ef að þegar skiptastjóri er kallaður til fengju birgjar að taka vörurnar sínar sem ekki er búið að borga fyrir og svo yrðu vörurnar sem búið er að borga fyrir seldar. 





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×