Viðskipti erlent

Græða á tá og fingri á svikum og prettum

Samúel Karl Ólason skrifar
Mark Zuckerberg, forstjóri Meta.
Mark Zuckerberg, forstjóri Meta. AP/Jeff Chiu

Sérfræðingar Meta, sem rekur meðal annars samfélagsmiðlana Facebook og Instagram, áætla að um tíu prósent allra tekna félagsins í fyrra, 2024, séu til komnar vegna auglýsinga sem ganga út á að svindla á fólki eða selja ólöglegan varning. Notendur samfélagsmiðla Meta sjá um fimmtán milljarða slíkra auglýsinga á degi hverjum.

Þetta kemur fram í skjölum fyrirtækisins sem blaðamenn Reuters hafa komið höndum yfir.

Heildartekjur Meta árið 2024 voru samkvæmt ársuppgjöri félagsins heilir 164,5 milljarðar dala. Það samsvarar um 21 billjón króna (21.000.000.000.000), lauslega reiknað. Tíu prósent af því eru þá 2,1 billjón.

Samkvæmt áðurnefndum skjölum greina innri kerfi samfélagsmiðla Meta í flestum tilfellum þessar auglýsingar og eru þær flaggaðar sem grunsamlegar. Mjög sjaldgæft er að innri kerfi Meta banni þessar auglýsingar þar sem tiltölulega háir þröskuldar eru fyrir því.

Til að reyna að sporna gegn þessu var kerfum Meta breytt á þann veg að þeir sem grunaðir eru um svik og pretti eru rukkaðir meira fyrir að auglýsa á samfélagsmiðlum fyrirtækisins. Er þessu ætlað að sporna gegn svikamyllum og auglýsingum á ólöglegum vörum og þjónustu.

Skjölin sýna þó einnig, samkvæmt frétt Reuters, að þeir sem smella á slíkar auglýsingar eru líklegir til að sjá fleiri í framtíðinni, þar sem innri kerfi Meta sýna notendum efni og auglýsingar sem þeir eru taldir hafa áhuga á.

Umrædd skjöl þykja benda til þess að forsvarsmenn Meta vilji ekki grípa til aðgerða til að verja notendur sína, komi það niður á tekjum fyrirtækisins.

Sandeep Abraham, sérfræðingur í svikamálum sem starfaði áður hjá Meta og rekur nú eigið ráðgjafarfyrirtæki, sagði í samtali við Reuters að skjölin vörpuðu ljósi á skýran skort á reglugerðum hvað varðar samfélagsmiðlafyrirtæki og auglýsingar.

„Ef stjórnvöld sætta sig ekki við að bankar hagnist á vikum, ættu þau ekki að sætta sig við það hjá tæknifyrirtækjum.“

Þungamiðja svikastarfsemi í heiminum

Í yfirlýsingu til fréttaveitunnar sagði talsmaður Meta að greiningin sem skjölin byggðu á hefði ekki verið fullkomin. Gert hefði verið of mikið úr vandanum og margar auglýsingar sem væru ekki einhvers konar svindl, hefðu verið teknar með inn í reikninginn.

Talsmaðurinn sagði þar að auki að gripið hefði verið til aðgerða gegn svikum síðan greiningin var framkvæmd.

Eins og fram kemur í frétt Reuters segir þó í skjölunum að forsvarsmenn Meta séu meðvitaðir um að samkeppnisaðilar þeirra væru að gera meira til að sporna gegn svikum og prettum. Í skjali sem samið var í apríl á þessu ári stóð að auðveldara væri að birta auglýsingar eins og þær sem um ræðir á samfélagsmiðlum Meta en hjá Google.

Þá segir einnig í skjölunum að forsvarsmenn Meta viðurkenni að samfélagsmiðlar fyrirtækisins séu orðnir að þungamiðju svikastarfsemi í heiminum. Til að mynda hafi verið áætlað að um þriðjungur allra vel heppnaðra svindla eða svika í Bandaríkjunum fari fram gegnum samfélagsmiðla Meta.


Sektir ekki nægilega háar svo aðgerðir borgi sig

Fyrirtæki eins og Meta standa frammi fyrir miklum þrýstingi víðs vegar um heim en þó sérstaklega í Evrópu um að gera meira til að verja notendur gegn svikum og prettum og gegn ólöglegu efni í tilteknum ríkjum.

Samkvæmt skjölunum vilja stjórnendur Meta draga úr þessum auglýsingum en óttast að of hraðar og strangar aðgerðir myndu koma niður á viðskiptaáætlunum félagsins. Þá segir þar einnig að búast megi við því að sektir vegna auglýsinganna verði það lágar að það myndi ekki borga sig að missa tekjurnar af þeim.

Sjá einnig: Framkvæmdastjórnin beinir spjótunum að Meta og TikTok

Ef auglýsendur eru gómaðir við að reyna að svindla á fólki eða selja ólöglega vöru eða þjónustu þurfa þeir að fá átta áminningar, í fyrsta lagi, áður en lokað er á þá. Í einhverjum tilfellum er vitað til þess að aðilar sem hafa varið miklum peningum í auglýsingar á miðlum Meta hafi verið áminntir oftar en fimm hundruð sinnum án þess að lokað sé á þá.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×