Neytendur

Verðmerkingum 49 verslana á­bóta­vant

Árni Sæberg skrifar
Útilíf var meðal þeirra verslana sem hlaut sekt. 
Útilíf var meðal þeirra verslana sem hlaut sekt.  Vísir/Vilhelm

Neytendastofa framkvæmdi nýverið skoðun á ástandi verðmerkinga hjá 142 verslunum og þjónustuveitendum í Kringlunni og Smáralind. Gerðar voru athugasemdir við verðmerkingar í 49 verslunum, þar sem ástandi verðmerkinga var ábótavant. Sjö fyrirtæki hlutu sektir fyrir að gera ekki úrbætur á verðmerkingum.

Í tilkynningu þess efnis á vef Neytendastofu segir að í verðmerkingareftirliti sé skoðað hvort söluvörur séu veðmerktar, hvar sem þær eru sýnilegar eða aðgengilegar neytendum. Einnig sé skoðað hvort verðskrá yfir framboðna þjónustu sé sýnileg.

Í verðmerkingareftirliti Neytendastofu hafi starfsmenn stofnunarinnar gert athugasemdir við verðmerkingar í 49 verslunum, þar sem ástandi verðmerkinga var ábótavant, og stofnunin hafi kvatt til úrbóta. Skoðuninni hafi að lokum verið fylgt eftir með annarri heimsókn og nú hafi stofnunin sektað sjö fyrirtæki, sem hafi ekki gert fullnægjandi úrbætur á verðmerkingum.

Í ákvörðunum stofnunarinnar má sjá að Polern O. Pyret, Jói Útherji, Home & You og Local hafi hlotið fimmtíu þúsund króna sekt. 

Drífa ehf., sem rekur Icewear Magasín og Mr. Heklu, Útilíf, sem rekur verslanir bæði í Kringlunni og Smáralind, og Föt og skór ehf, sem rekur Herragarðinn og Boss búðina, hafi hlotið hundrað þúsund króna sekt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×