Handbolti

Geta orðið fyrstir til að slá deildarmeistarana út í átta liða úrslitum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stefán Rafn Sigurmannsson og félagar í Haukum geta sent Íslandsmeistara Vals í sumarfrí í kvöld.
Stefán Rafn Sigurmannsson og félagar í Haukum geta sent Íslandsmeistara Vals í sumarfrí í kvöld. vísir/snædís

Haukar geta brotið blað í sögu úrslitakeppninnar í handbolta karla þegar þeir mæta Val í kvöld.

Haukar unnu Val á Hlíðarenda á sunnudaginn, 22-24, og með sigri á Ásvöllum í kvöld tryggja Hafnfirðingar sér sæti í undanúrslitum Olís-deildarinnar.

Ef það tekst verða Haukar fyrsta liðið sem endar í 8. sæti til að slá deildarmeistarana úr leik í sögu úrslitakeppninnar. Deildarmeistararnir hafa hingað til aldrei fallið út í átta liða úrslitum úrslitakeppninnar.

Aðeins einu sinni hefur það gerst að deildarmeistarar hafa fallið út í 1. umferð úrslitakeppninnar. Það var 2012 þegar HK vann Hauka, 3-0, í undanúrslitum. Þá voru aðeins átta lið í efstu deild og bara fjögur lið í úrslitakeppninni.

Haukar hljóta að hugsa sér gott til glóðarinnar gegn Val í kvöld enda eru margir leikmenn fjarri góðu gamni hjá Íslandsmeisturunum vegna meiðsla.

Valur vann fyrsta leikinn gegn Haukum í vetur en hefur tapað síðustu tveimur leikjum gegn frændliði sínu.

Leikur Hauka og Vals hefst klukkan 19:30 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 5.


Tengdar fréttir

Snorri Steinn gæti spilað í kvöld: „Ég er í fínu formi“

Tímabilið er undir hjá Íslandsmeisturum Vals  í kvöld þegar þeir mæta Haukum öðru sinni í 8-liða úrslitum Olís-deildar karla í handbolta. Þjálfarinn Snorri Steinn Guðjónsson verður mögulega með í leiknum vegna meiðsla í herbúðum Vals.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×