Tónlist

„Veit um tvær stelpur sem eru skírðar í höfuðið á laginu mínu“

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Thorsteinn Einarsson ræðir við blaðamann um tónlistina og tilveruna.
Thorsteinn Einarsson ræðir við blaðamann um tónlistina og tilveruna. Marlene Brandstötter

„Ég byrjaði í tónlist þegar ég var pínulítill. Pabbi er söngvari og ég var fimm ára þegar ég byrjaði að spila á gítar,“ segir tónlistarmaðurinn Thorsteinn Einarsson, sem skrifaði átján ára gamall undir plötusamning í Austurríki. Hann hefur verið að gera góða hluti þar undanfarin ár, er með milljónir spilanna á streymisveitunni Spotify og hefur spilað víða á tónleikum. Blaðamaður hitti hann í kaffi og tók púlsinn á honum.

Tilfinningarík persóna

„Þegar ég var átta ára byrjaði ég svo að semja lög upp á gamnið og stofnaði hljómsveit ellefu ára með vinum mínum. Þannig að ég hef einhvern veginn alltaf verið að gera tónlist, svo lengi sem ég man eftir mér,“ segir Thorsteinn um tónlistina, sem virðist alla tíð hafa verið órjúfanlegur hluti af honum.

Thorsteinn lýsir sér sem tilfinningaríkri persónu og eiga lögin hans það til að endurspegla það. Þann 21. apríl næstkomandi sendir hann frá sér sitt næsta lag sem heitir Echo.

„Lagið fjallar um að geta verið stoltur af því hvar maður er. Að hafa komist í gegnum erfið tímabil, vilja fá smá klapp á bakið og að einhver segi vel gert. Þess vegna syng ég „I’ve been screaming for an Echo“. Þetta er svona hey, ég er stoltur af því að hafa komist í gegnum þetta og að ég gat gert þetta.“

Tónlistin hefur alltaf verið einhvers konar þerapía fyrir Thorstein.Marlene Brandstötter

Thorsteinn opnaði sig fyrr á árinu um bróðurmissi og tók hann sér nokkra mánuði í pásu frá umheiminum og samfélagsmiðlum. Á Instagram síðu sinni deildi hann færslu þar sem hann skrifar meðal annars að það væri honum mikilvægt að opna sig á hreinskilinn hátt um þá miklu erfiðleika sem hann var að ganga í gegnum.

Tónlistin smá eins og sálfræðimeðferð

Tónlistin reynist Thorsteini öflug þerapía, sem getur þó tekið mikið á.

„Ég reyni að semja lög eins oft og hægt er. Ég hef alltaf áttað mig á því að tilfinningaríku lögin mín, þar sem ég er að semja um eitthvað sem hefur virkilega gerst, eru þau lög sem verða oftast fyrir valinu hjá mér. Svo eru mörg hundruð lög sem ég sem og geri ekkert við, þau eru í raun bara æfing fyrir það að semja þegar eitthvað gerist í lífinu.

Svo finnst mér mjög gaman að semja fyrir aðra og það er allt annað ferli. Þá þarf ég ekki að tala um eitthvað persónulegt, því ég reyni frekar að hugsa hvað manneskjan sem flytur lagið vill segja. Mér finnst það mikið auðveldara. Þú sérð allt miklu meira svart á hvítu, þá er þetta ekki eins persónulegt fyrir mér. Þú þarft ekki að opna þig svona rosalega mikið.

Þegar ég er búinn að semja lag um eitthvað rosalega persónulegt þá er ég virkilega þreyttur í tvo daga eftir á og kemst varla upp úr rúminu, því maður er svo tilfinningalega búinn á því. 

Ég fer örugglega í smá þunglyndi eftir það, en svo líður manni betur því maður er búinn að opna sig. Þetta er smá eins og sálfræðimeðferð, tónlistin er náttúrulega þerapían mín. Svo stundum er maður eins og þerapisti fyrir aðra, þegar maður er að semja lög fyrir annað fólk,“ segir hann brosandi.

Thorsteinn segir að það taki minna á sálarlífið að semja fyrir aðra en að semja persónulegt lag fyrir sjálfan sig.Marlene Brandstötter

Náttúruelskandi tónlistarmaður

Thorsteinn er náttúruelskandi tónlistarmaður sem lýsir sér sem drífandi einstaklingi.

„Mér finnst gott og þægilegt að hafa markmið og vinna að þeim, og svo finnst mér mjög gott að geta dregið mig til baka og verið prívat. Ég elska náttúruna og þess vegna flutti ég frá Vínarborg í pínulítinn bæ sem heitir Gmunden. Hér er fallegt stöðuvatn og flott fjöll allt í kring. 

Mér finnst ofboðslega þægilegt að geta verið umkringdur náttúrunni og geta farið út að ganga, það er örugglega Íslendingurinn í mér.“

Datt inn í heim tónlistarinnar

Tónlistaráhuginn hefur sem áður segir alltaf verið til staðar hjá Thorsteini, sem hélt þó í fyrstu að þetta yrði fyrst og fremst áhugamál.

„Ég er ekkert tónlistarmenntaður, mér fannst bara gaman að semja og ég elskaði alltaf að vera uppi á sviði að syngja og spila á gítar. Þannig ég byrjaði að æfa mig, horfði oft á Youtube myndbönd og pabbi kenndi mér einhver grip.

Ég var alltaf fyrst og fremst að njóta þess að geta gert tónlist og ég sá það aldrei sem eitthvað sem gæti verið minn ferill. Ég hugsaði með mér að þetta gæti mögulega verið eitthvað sem ég gerði til hliðar, að stofna hljómsveit og spila á einhverjum pöbbum.

Svo þegar ég fékk plötusamning í Austurríki þegar ég var átján ára þá fattaði ég að ég gæti kannski púllað þetta mastermove. Því ég datt einhvern veginn inn í þetta, þetta var ekki eitthvað risastórt plan hjá mér.“

Í kjölfar plötusamningsins urðu því straumhvörf í lífi Thorsteins.

„Þá ákvað ég bara að taka þessu mjög alvarlega og gefa allt í þetta. Ég samdi lag sem heitir Leya og svínvirkaði í Austurríki. Þá vissi ég bara að þetta væri það sem ég vildi gera og að ég gæti gert þetta, sem er mjög spes tilfinning.“

Í spilaranum hér fyrir neðan má heyra lagið Leya eftir Thorstein:

„Fólk hérna veit ekkert hver ég er“

Blaðamaður spyr Thorstein þá hvernig það sé að koma hingað til Íslands sem vinsæll tónlistarmaður í Austurríki.

„Fólk hérna veit ekkert hver ég er. Ég hef ekkei verið mikið í viðtölum eða að prómóta efnið mitt hér á Íslandi. Sem er líka mjög þægilegt því það er enginn að glápa á mann hér eða rýna í textana manns og hugsa: Er þetta gaurinn sem samdi þetta? 

Ég hef alltaf fílað að geta komið til Íslands og verið ég. Í Austurríki þarf maður að passa sig, ég hef alveg orðið vitni af því að fólk sé að taka myndir af mér.

Ég hlakka samt mikið til að geta spilað tónleika hérna á Íslandi og mig langar auðvitað að fólk kunni lögin og geti sungið með, það væri náttúrulega draumur.

Ég sem allt á ensku en ég er að spá í að taka eitt lag á íslensku, ég er að reyna það allavega en sjáum til, það verður spennandi hvað kemur út úr því.“

Thorsteinn var átján ára gamall þegar að hann skrifaði undir plötusamning.Marlene Brandstötter

Stöðugir flutningar mjög mótandi

Aðspurður hvað hafi mótað hann hvað mest segir Thorsteinn:

„Ég flutti mjög oft á mínum yngri árum og ég held að það hafi mótað mig hvað mest. Ég flutti mikið um Austurríki og líka hér á Íslandi. Ég hef eiginlega alla ævi verið að flytja og ég held að það hafi byggt karakterinn minn.

Ég var alltaf nýi gaurinn í bekknum en var fljótur að eignast vini, vita hvernig týpa hver var og læra að lesa fólk. Ég held að það hafi byggt mig upp. 

Nú flutti ég í þennan litla bæ til að þurfa ekki að vera að flytja endalaust aftur.

Mig langaði að finna svona heimavöll sem er á milli Salzburgar, þar sem fjölskyldan mín er, og Vínar, þar sem ég er mikið að vinna. Þetta er akkúrat í miðjunni og þetta er svona mitt eigið rými. Umboðsmennirnir mínir eru í sama bæ og ég og þetta er allt mjög þægilegt. Hér get ég búið til mínar eigin rætur.“

Thorsteinn býr í smábænum Gmunden og segir gott að geta fest rætur þar.Marlene Brandstötter

Sambandsslitin svolítið eins og í lélegri bíómynd

Thorsteinn segist njóta þess að geta verið í einrúmi en hann sé þó líka mikil félagsvera.

„Ég fattaði í COVID að ég hataði það líka að vera einn þótt ég geti elskað það. Ég elska til dæmis þegar ég get bara verið einn heima hjá mér og horft á bíómynd eða fara stundum einn í bíó. Maður þarf að hlaða batteríin en ég er líka extrovert og í COVID áttaði ég mig á því að mig langar að stofna fjölskyldu einhvern tíma og eignast börn, ég ætla ekki að vera einn alltaf.

Ég fór í gegnum sambandsslit í byrjun COVID og þetta var svolítið eins og í lélegri bíómynd. Um leið og við hættum saman kom lockdown og við áttum heima saman. Við vorum á endapunkti sambandsins með tár í augunum, kveikjum á sjónvarpinu og þá kemur bara í ljós að það er lockdown,“ segir hann kíminn.

Hann segir faraldurinn hafa verið krefjandi fyrir sig og tónlistina.

„Það eina sem að ég geri er tónlist, þetta er eina starfið mitt og ég er ekki að gera neitt annað til hliðar. Ég var mjög stressaður og ég á vini sem misstu allt, ég var mjög heppinn að maður fékk til dæmis hjálp frá ríkinu í Austurríki. 

Ég var búinn að spila fullt af tónleikum og því búinn að safna einhverju, þannig maður fór bara í það að spara. Það lentu auðvitað margir í miklu verri aðstæðum, en þetta var ekki einfalt tímabil.“

Heil plata í gegnum Zoom

Sköpunargleðin fór þó á stjá hjá honum þrátt fyrir krefjandi aðstæður.

„Ég samdi heila plötu í gegnum COVID og ég gerði hana bara í gegnum Zoom í tölvunni. Ég var búinn að mæta í fullt af svona Zoom tónlistar sessionum á þessum tíma og var alveg að gefast upp á þeim, fannst þetta ekkert vera að virka og hugsaði að maður yrði að vera saman í herbergi.

Svo kynntist félaga mínum frá Noregi sem heitir Kristian Vik og fór í session með honum. Við sömdum lag sem heitir Shackles sem virkaði mjög vel og þá vissi ég að þetta væri hægt. Þannig við sömdum bara heila plötu í gegnum Zoom, sem var erfitt en æðislegt. 

Núna er hann svo alltaf að koma til Austurríkis eða ég til Noregs, þannig við getum hist, sem er svo skemmtilegt. Það var líka svo spes þegar ég hitti hann í fyrsta skipti í alvöru lífi, þá var þetta bara eins og að hitta besta vin sinn sem maður hefur samt aldrei hitt en veit ótrúlega mikið um.

Þannig að ég lærði að vinna með fólki í gegnum tölvu og það kom mér mjög mikið á óvart hvað það er mikið hægt í gegnum tölvu.“

Í spilaranum hér fyrir neðan má heyra lagið Shackles:

Þriggja mínútna pása frá raunveruleikanum

Thorsteinn segist alltaf hafa hugsað um popptónlist sem eitthvað sem á að geta tekið fólk út úr raunveruleikanum í þrjár mínútur.

„Að manneskja geti til dæmis tekið smá tímaflakk með tónlistinni, ferðast aftur til barnæskunnar eða tónlistin minnir hana á eitthvað tímabil, og hún fer út úr stressinu í smá stund.

Það þarf ekki alltaf að vera eitthvað rosalega djúpt og sorglegt sem breytir lífinu þínu, það er bara mjög þægilegt ef fólk getur farið í burtu í smá stund með því að hlusta á tónlist eða farið á tónleika og gargað með uppáhalds lögunum sínum. Ég held að það sé allavega markmiðið með minni tónlist.“

Thorsteinn segir að markmiðið með tónlistinni sé að geta veitt fólki smá pásu frá raunveruleikanum.Marlene Brandstötter

Húðflúr og manneskjur út frá lögunum hans

Hann segir að það komi sér sífellt á óvart hvað tónlistin hans getur haft mikil áhrif.

„Á tónleikum hjá mér lenti ég í því að hitta konu sem á sjö ára dóttur sem heitir Leya, í höfuðið á laginu mínu. 

Þá er ég bara vá! Markmiðið mitt er auðvitað ekki að búa til manneskju úr þessu, en þetta er frekar magnað,“ segir Thorsteinn hlæjandi og bætir við: „Þá sér maður hvað tónlistin getur haft mikil áhrif án þess að maður sé að plana það. Ég veit um tvær Leyur í Austurríki sem heita Leya út af laginu.

Svo eru til tugir húðflúra í minni handskrift. Ég hef oft áritað hendur á stelpum eftir tónleika, sem segja mér svo að þær ætli að fá sér handskriftina mína sem húðflúr. 

Það er dálítið ruglað hvað þetta getur farið langt en markmiðið er að geta leyft fólki að flýja í nokkrar mínútur.“

Mikilvægt að vanda sig þegar hlustað er á tónlist

Þrátt fyrir að lifa og hrærast í heimi tónlistarinnar finnst Thorsteini mikilvægt að hlusta ekki of mikið á tónlist.

„Mér finnst tónlistin vera eina tímavélin sem að við eigum. Þegar ég heyri Queen þá finn ég lyktina af íbúðinni okkar sem ég bjó í þegar ég var pínulítill. Ég held að fullt af fólki þekki það, að finna lykt tengda tónlist.

Ég hlusta mikið á tónlist en ég reyni samt að hafa tónlistina ekki í gangi allan daginn, því þá verð ég pirraður. Mig langar að geta sest niður og notið þess að hlusta. Við erum með alltof mikið af tónlist í kringum okkur en mér finnst að fólk ætti að spóla aðeins til baka og njóta þess virkilega þegar það er að hlusta á tónlist. 

Ég mæli með því að fólk hlusti minna á tónlist, en þegar það hlustar hlusti það betur á tónlist.“

Innblásturinn kemur til hans úr lífinu og hversdagsleikanum.

„Stundum koma móment sem maður veit að verða að lagi. Svo hafa litlu hlutirnir líka áhrif, sem geta til dæmis bara komið úr bíómynd. Ég var á leiðinni til Noregs um daginn og horfði á mynd í vélinni þar sem ein ákveðin lína greip mig eitthvað. Þá fór ég að hugsa hvernig væri hægt að snúa þessari línu á alls konar vegu og breyta merkingu hennar. 

Þannig getur hugmynd að lagi kviknað og eiginlega allt getur verið innblástur. Þess vegna er mikilvægt að geta verið móttækilegur fyrir öllu.“

Nýtt lag og tónleikaferðalag

Það er margt spennandi á döfinni hjá Thorsteini, sem er nú að vinna að plötu ásamt því að gefa út lagið Echo næsta föstudag.

„Ég er að fara að taka stórt tónleikaferðalag í Austurríki, Þýskalandi og Sviss í sumar. Það verða fullt af giggum og svo vona ég innilega að ég geti spilað á Íslandi í ár. Það væri sjúklega gaman, mig langar að geta spilað fyrir Íslendinga live og ég held líka að minn helsti styrkleiki sé að spila live,“ segir Thorsteinn að lokum.

Hér má hlusta á Thorstein á streymisveitunni Spotify.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×