Handbolti

Kjelling fann annað íslenskt varnartröll

Sindri Sverrisson skrifar
Róbert Sigurðarson ætlar sér eflaust að kveðja ÍBV með titli.
Róbert Sigurðarson ætlar sér eflaust að kveðja ÍBV með titli. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Róbert Sigurðarson, hinn 27 ára gamli leikmaður ÍBV í handbolta, mun söðla um í sumar og halda til Noregs til að spila fyrir norska úrvalsdeildarfélagið Drammen.

Róbert mun klára tímabilið með Eyjamönnum sem brátt hefja leik í úrslitakeppninni en þeir mæta Stjörnunni í 8-liða úrslitum og hefst einvígið í Eyjum á laugardaginn.

Drammen segir á heimasíðu sinni að þjálfarinn Kristian Kjelling, sem er fyrrverandi landsliðsmaður Noregs, hafi leitað til Íslands eftir nýju varnartrölli og fundið það í Róberti.

Kjelling fékk ábendingu um Róbert frá Svein Tore Moe, einum af helstu bakhjörlum Drammen, sem sagður er vera með fyrrverandi markvörð frá Íslandi í vinnu hjá sér í Cenika. Sá á að hafa bent Moe á Róbert.

Drammen hafi vantað varnarmann í ljósi þess að Óskar Ólafsson sé að leggja skóna á hilluna, og Espen Gommerud Våg sé farinn til Sporting Lissabon.

„Ég get varla beðið. Þetta verður fyrsta félagið mitt erlendis og ég hlakka mikið til að koma inn í nýja deild, í nýtt lið og hitta nýja liðsfélaga,“ segir Róbert á heimasíðu Drammen og bætir við:

„Og ég hlakka til að æfa undir stjórn Kristian Kjelling. Hann er jú norsk handboltagoðsögn.“

Róbert hefur verið einn besti varnarmaður Olís-deildarinnar síðustu ár. Hann kom til ÍBV að láni frá Akureyri haustið 2017 og tveimur árum síðar voru félagaskiptin gerð varanleg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×