Körfubolti

„Myndu mæta og styðja okkur þó við værum að spila í Kína“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Taiwo Badmus átti frábæran leik fyrir Stólana í kvöld.
Taiwo Badmus átti frábæran leik fyrir Stólana í kvöld. Vísir/Bára Dröfn

Taiwo Hassan Badmus átti frábæran leik þegar Tindastóll vann stórsigur á deildarmeisturum Vals í Subway-deild karla í kvöld. Leikurinn skipti engu máli upp á töfluna að gera en þetta var gríðarlega flottur sigur hjá Stólunum samt sem áður.

„Ég er klárlega ánægður með þetta. Við komum inn í leikinn og ætlum að vera agresívir, gera okkur tilbúna fyrir úrslitakeppnina,“ sagði Badmus eftir leik og bætti við:

„Það gerðum við í kvöld.“

„Við ætluðum að nota þennan leik til að vinna í okkur sjálfum. Við ætlum að mæta sterkir inn í úrslitakeppnina og til þess þurfum við að halda dampi sem við gerðum í þessum leik. Við viljum mæta í alla leiki af krafti og við munum gefa sömu orku hvort sem við erum að mæta botnliðinu eða toppliðinu.“

Það munaði aðeins tveimur stigum í hálfleik en Tindastóll var með öll völd á vellinum í seinni hálfleik og keyrði yfir Valsmenn.

„Við reyndum að taka stjórn á leiknum og við náðum stjórninni um miðbik þriðja leikhluta,“ sagði Badmus en hann átti einhverja bestu troðslu tímabilsins í fjórða leikhlutanum.

„Ég tók bara á loft og tróð boltanum.“

Stuðningsmenn Tindastóls voru frábærir í leiknum og var mikill fjöldi þeirra mættur á Hlíðarenda í kvöld.

„Ég elska stuðningsmennina okkar. Þeir styðja okkur og það skiptir engu máli hvar við erum að spila. Þeir myndu mæta og styðja okkur þó við værum að spila í Kína. Okkur þykir vænt um þeirra stuðning,“ sagði Badmus en hann er spenntur fyrir úrslitakeppninni. Tindastóll mætir Keflavík í fyrstu umferð.

„Ég upplifði úrslitakeppnina á síðasta tímabili og þá myndaðist frábært andrúmsloft hjá okkur. Vonandi verður það líka núna. Ég vil byggja á þessari frammistöðu fyrir úrslitakeppnina. Mér leið vel og liðinu líka.“


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.