Logi varð í síðasta leik Njarðvíkur aðeins tíundi leikmaðurinn í sögu úrvalsdeildar sem nær að skora fjögur þúsund stig fyrir eitt lið í deildinni.
Logi, sem lék sinn fyrsta leik í efstu deild í október árið 1997, hefur náð að spila 290 leiki og skora 4001 stig í úrvalsdeild karla þrátt fyrir að hafa verið í atvinnumennsku í tíu ár.
Njarðvíkingar vöktu hins vegar athygli á því á miðlum sínum að tveir efnilegir leikmenn léku sinn fyrsta úrvalsdeildarleik með kvennaliði Njarðvíkur.
Þetta eru þær Hulda María Agnarsdóttir og Sara Björk Logadóttir. Báðar komu þær við sögu í sínum fyrsta leik þegar Njarðvík vann góðan sigur á Haukum í Subwaydeild kvenna.
Sara Björk, sem er fædd árið 2008, er dóttir Loga Gunnarssonar en Hulda María er dóttir Svövu Óskar Stefánsdóttur sem vann marga titla með kvennaliði Keflavíkur á sínum tíma.
Sara hélt upp á fimmtán ára afmælið sitt á dögunum og var því einu ári yngri en faðir sinn þegar hann lék sinn fyrsta leik.
Sara Björk fékk að koma inn á undir lokin og náði að koma sér á vítalínuna þar sem hún skoraði sitt fyrsta stig.