Körfubolti

Kom inn af bekknum í að­eins annað sinn og gæti farið undir hnífinn í sumar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
LeBron James í aðeins sínum öðrum leik sem varamaður í NBA-deildinni
LeBron James í aðeins sínum öðrum leik sem varamaður í NBA-deildinni Kevork Djansezian/Getty Images

LeBron James kom inn af bekknum í tapi Los Angeles Lakers gegn Chicago Bulls í NBA-deildinni í körfubolta. Þetta var aðeins í annað sinn á ferli sem spannar rúmlega tvo áratugi sem LeBron kemur inn af bekknum.

LeBron James er orðinn 38 ára gamall og hefur verið í NBA-deildinni frá árinu 2003. Síðan þá hefur hann spilað með Cleveland Cavaliers, Miami Heat og Los Angeles Lakers, þar sem hann er enn.

Hann hefur fjórum sinnum orðið NBA-meistari og nú tvívegis komið inn af bekknum á ferlinum sínum. Annar leikurinn kom nú gegn Chicago en sá fyrsti var árið 2007 þegar LeBron var leikmaður Cleveland.

LeBron hefur verið að glíma við erfið meiðsli nær allt tímabilið en hefur þó spilað 48 leiki á tímabilinu. Fyrir leikinn gegn Chicago hafði LeBron ekki spilað í sléttan mánuð vegna meiðsla. Missti hann af 13 leikjum á þeim tíma.

Hann virðist ætla að spila í gegnum sársaukann til að hjálpa Lakers inn í úrslitakeppnina og fara sem lengst þar. Eftir leik sagðist LeBron ekki vita hvort hann væri á leið undir hnífinn þegar tímabilinu lýkur. Hann sagði þó að ef hann færi í aðgerð þá myndu fjölmiðlar ekki fá að vita af því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×