Körfubolti

Subway-deild kvenna verður tíu liða deild

Smári Jökull Jónsson skrifar
Hildur Björg Kjartansdóttir og Lovísa Björt Henningsdóttir í baráttunni í Subway-deild kvenna.
Hildur Björg Kjartansdóttir og Lovísa Björt Henningsdóttir í baráttunni í Subway-deild kvenna. Vísir/Bára

Á ársþingi KKÍ í gær var samþykkt að fjölga um tvö lið í Subway-deild kvenna. Þá verður átta liða úrslitakeppni og ungmennaflokkur felldur niður.

Ársþing KKÍ í gær var nokkuð viðburðaríkt. Fyrirfram voru tvö mál fyrirferðamest, málefni erlendra leikmanna sem og úrvals- og 1. deildar kvenna.

Tillaga um að fjölga skyldi í úrvalsdeild kvenna var samþykkt og verður hún nú skipuð tíu liðum. Átta efstu liðin fara í úrslitakeppni með því fyrirkomulagi sem nú þekkist.

Neðsta lið deildarinnar fellur beint í 1. deild en sæti þess lið tekur sigurvegari 1. deilar. Liðið sem hafnar í næst neðsta sæti úrvalsdeildar mun leika umspilsleiki við liðin í 2. - 4. sæti 1. deildar um sæti í úrvalsdeild tímabilið á eftir.

Þá var einnig samþykkt að leggja niður ungmennaflokk kvenna, sem skipaður er 19 og 20 ára leikmönnum, sem þess í stað færist inn í keppni 1. deildar þar sem B-lið munu keppa ásamt öðrum meistaraflokksliðum sem þar eru.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×