Körfubolti

Subway Körfuboltakvöld: Umræða um breytt fyrirkomulag Subway-deildar kvenna

Smári Jökull Jónsson skrifar
Halldór Karl Þórsson og Pálína Gunnlaugsdóttir voru sérfræðingar í Subway Körfuboltakvöldi og ræddu tillögu að breytingu á fyrirkomulagi deildarinnar.
Halldór Karl Þórsson og Pálína Gunnlaugsdóttir voru sérfræðingar í Subway Körfuboltakvöldi og ræddu tillögu að breytingu á fyrirkomulagi deildarinnar. Vísir

Þátturinn Subway Körfuboltakvöld var á dagskrá á fimmtudag þar sem Hörður Unnsteinsson og sérfræðingar fóru yfir tillögur sem liggja fyrir um breytt keppnisfyrirkomulag í Subway deild kvenna.

Þau Pálína Gunnlaugsdóttir og Halldór Karl Þórsson voru gestir Harðar í þættinum á fimmtudag og auk þess að fara í saumana á leikjunum í síðustu umferð deildarinnar ræddu þau tillögu sem komin er fram um breytt keppnisfyrirkomulag í Subway deild kvenna.

Eins og deildin er spiluð núna þá eru átta lið í deildinni þar sem fjögur efstu liðin komast í úrslitakeppni og neðsta lið deildarinnar fellur í næst efstu deild.

Nú liggja fyrir tillögur um breytt fyrirkomulag með það að markmiði að fjölga liðum og fjölga jöfnum leikjum en deildin í ár hefur nánast alveg verið tvískipt og töluvert um stóra sigra.

Tíu liða deild og sex liða úrslitakeppni

Halldór Karl kynnti tillögurnar sem hafa verið sendar út á öll félög sem eiga lið í efstu og næst efstu deild kvenna.

„Fyrsta pælingin er að fjölga í deildinni og fá fleiri lið og fleiri stelpur til að spila í efstu deild og styrkja deildina. Við sjáum sérstaklega núna að hún er algjörlega tvískipt og þessi umferð núna er ótrúlega óspennandi,“ sagði Halldór sem þjálfaði kvennalið Fjölnis í fyrra og er núverandi þjálfari karlaliðs félagsins.

„Við erum nokkrir þjálfarar búnir að móta þetta sem erum mikið inni í kvennaboltanum. Pælingin er að setja tíu lið í deildina, taka tvöfalda umferð og skipta þá yfir í A og B-deild,“ sagði Halldór en í kjölfar skiptingarinnar yrði leikin tvöföld umferð í hvorri deild.

Klippa: Umræða um breytt fyrirkomulag í Subway-deild kvenna

„Síðan er planið að fara í sex liða úrslitakeppni með „play-in“ fyrirkomulagi eins og í NBA-deildinni,“ bætti Halldór við en þar myndu öll fimm liðin í A-deild keppa ásamt efsta liði B-deildar.

Pálína tók vel í breytingarnar og sagði gott að hafa að mörgu að keppa.

„Þarna ertu með svo mörg lítil markmið á leiðinni. Byrjum á því að komast í 5.sætið, verum í efri hlutanum. Það eru svo margar vörður á leiðinni.“

Pálína rifjaði einnig upp að áður hefði verið reynt fyrirkomulag þar sem deildinni væri skipt í tvennt. Hörður og Pálína voru sammála um að lykilbreyting núna væri að efsta lið B-deildar færi í úrslitakeppni.

Alla umræðu þeirra Harðar, Halldórs Karls og Pálínu má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×