Handbolti

Haukar kæra framkvæmd leiksins gegn Gróttu

Smári Jökull Jónsson skrifar
Haukar hafa kært framkvæmd leiksins gegn Gróttu.
Haukar hafa kært framkvæmd leiksins gegn Gróttu. Vísir/Snædís

Handknattleiksdeild Hauka hefur kært framkvæmd leiksins gegn Gróttu síðastliðinn fimmtudag en þetta hefur HSÍ staðfest í samtali við Vísi.

Grótta vann eins marks sigur á Haukum í Olís-deild karla í handknattleik á fimmtudagskvöld en lokasekúndur leiksins voru æsispennandi. Haukar virtust hafa komist yfir þegar örfáar sekúndur voru eftir en Gróttu tókst að skora í kjölfarið og fögnuðu því sem flestir héldu að væri jafntefli.

Í ljós kom hins vegar að annar dómari leiksins hafði dæmt línu á Stefán Rafn Sigurmannsson þegar hann kom knettinum í netið í sókninni á undan á meðan hinn dómarinn dæmdi mark. Eftir töluverða reikistefnu var niðurstaðan að mark Hauka var dæmt af en mark Gróttu látið standa.

Þetta voru Haukar gríðarlega ósáttir með og þeir hafa nú kært framkvæmd leiksins en þetta hefur Vísir fengið staðfest hjá HSÍ.

„Handknattleiksdeild Hauka kærir hér með framkvæmd leiks Hauka og Gróttu í Olísdeild karla sem fram fór fimmtudaginn 23. Mars 2023, þar sem dómari leiksins dæmir mark og staðfestir það með bendingum og flautumerki um að hefja megi leikinn á miðju með frumkasti,“ segir í kærunni sem liggur nú á borði Handknattleikssambandsins.

Arnar Daði Arnarsson, sérfræðingur Stöð 2 Sport í Seinni Bylgjunni og einn umsjónarmanna Handkastsins, greindi frá því í gær að kæra frá Haukum væri á leiðinni og það hefur nú verið staðfest.

Ásgeir Örn Hallgrímsson þjálfari Hauka var ómyrkur í máli eftir leikinn á fimmtudag og sagði niðurstöðuna algjört fíaskó.

„Mér finnst þetta fíaskó, mér finnst þetta ótrúlegur amatörismi sem var verið að bjóða hérna uppá. Þeir voru búnir að dæma leikinn fínt í 58 mínútur svo dæmir hann línu sem ég sé ekki. Ég skil ekki afhverju það er verið að dæma miðju þegar að það er búið að vera dæma línu hérna megin. Auðvitað fipast okkar leikmenn við það og þeir koma hérna upp og skora. Þetta er brandari sem er verið að bjóða uppá,“ sagði Ásgeir við Vísi eftir leik.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.