Körfubolti

Til­þrif vikunnar í Subway Körfu­bolta­kvöldi: Svaka­legar troðslur frá Kristófer Acox

Smári Jökull Jónsson skrifar
Kristófer Acox átti tilþrif vikunnar að þessu sinni.
Kristófer Acox átti tilþrif vikunnar að þessu sinni. Vísir/Hulda Margrét

Næstsíðasta umferð Subway-deildar karla í körfuknattleik lauk í gær og Hörður Unnsteinsson, Örvar Þór Kristjánsson og Brynjar Þór Björnsson fóru yfir alla leikina í þættinum Subway Körfuboltakvöld í gærkvöldi.

Valsmenn tryggðu sér deildarmeistaratitilinn í körfuknattleik þegar liðið vann stórsigur á Njarðvík í Subway-deildinni í gær. Enn er óljóst hvaða lið munu mætast í úrslitakeppninni en spennan fyrir lokaumferðina er töluverð þar sem mun koma í ljós hvernig liðin raðast í töflunni.

Í þættinum Subway Körfuboltakvöld var farið yfir öll helstu tilþrif umferðarinnar. Taiwo Badmus og Collin Pryor áttu báðir tvenn tilþrif á listanum, Styrmir Snær Þrastarson var á sínum stað og þá komst mögnuð þriggja stiga karfa Matej Karlovic á lista en hún kom í sigri Hattar gegn Blikum þar sem Hattarliðið tryggði veru sína í deildinni á næsta tímabili.

Það var hins vegar Kristófer Acox sem stal senunni þessa umferðina. Hann átti magnaðan leik fyrir Val gegn Njarðvík í gærkvöldi og toppaði frammistöðuna með tveimur troðslum sem röðuðu sér í tvö efstu sæti tilþrifapakkans.

„Svo er það þessi troðsla hér, tilþrif vikunnar og allavega „contender“ í tilþrif tímabilsins til þessa,“ sagði Hörður Unnsteinsson um seinni troðslu Kristófers en þar tróð hann með krafti yfir Maciek Baginski leikmann Njarðvíkur sem gat ekki annað en brosað út í annað.

„Spurning hvort Sjóvá vilji ekki nota þennan bút í næstu auglýsingu,“ sagði Örvar en Maciek er starfsmaður Sjóvá og hefur komið fram í auglýsingu fyrirtækisins að undanförnu.

Öll tilþrifin má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.

Klippa: Subway Körfuboltakvöld - Tilþrif 21. umferðarFleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.