Handbolti

Sjáðu ó­trú­legu lokin sem Ás­geir sagði al­gjört fía­skó

Sindri Sverrisson skrifar
Gróttumenn geta enn komist í úrslitakeppnina eftir hádramatískan sigur gegn Haukum í gærkvöld.
Gróttumenn geta enn komist í úrslitakeppnina eftir hádramatískan sigur gegn Haukum í gærkvöld. vísir/Diego

„Mér finnst þetta fíaskó, mér finnst þetta ótrúlegur amatörismi sem var verið að bjóða hérna uppá,“ sagði afar óánægður Ásgeir Örn Hallgrímsson, þjálfari Hauka, eftir ótrúlegar lokasekúndur í hinum mikilvæga leik liðsins gegn Gróttu í Olís-deildinni í handbolta í gær.

Haukar töldu sig hafa skorað sigurmark leiksins þegar örfáar sekúndur voru eftir en í staðinn endaði Grótta á að vinna leikinn, 28-27.

Haukar voru með boltann og tóku miðju þegar 15 sekúndur voru eftir af leiknum, og staðan 27-27. Grótta kom framarlega með sitt lið í von um að stela boltanum og skora sigurmark, því liðið þurfti nauðsynlega sigur í von um að nálgast Hauka og komast í úrslitakeppni Olís-deildarinnar. Eftir sigurinn munar aðeins tveimur stigum á liðunum.

Í lokasókn Hauka skoraði Stefán Rafn Sigurmannsson og virtist hafa komið Haukum yfir. Dómararnir voru ekki sammála og annar dæmdi línu á meðan hinn dæmdi miðju. Gróttumenn höguðu sér eins og að mark hefði verið skorað og tóku miðju, en voru þá í raun búnir að hefja sókn fram sem endaði með því að Birgir Steinn Jónsson skoraði sigurmark á síðustu sekúndu. Þetta má sjá á myndbandinu hér að neðan.

Eftir fund við dómaraborðið var komist að þeirri niðurstöðu að mark Gróttu skyldi standa en mark Hauka dæmt af. Ásgeir var skiljanlega virkilega ósáttur með niðurstöðuna.

„Mér finnst þetta fíaskó, mér finnst þetta ótrúlegur amatörismi sem var verið að bjóða hérna uppá. Þeir voru búnir að dæma leikinn fínt í 58 mínútur svo dæmir hann línu sem ég sé ekki. Ég skil ekki afhverju það er verið að dæma miðju þegar að það er búið að vera dæma línu hérna megin. Auðvitað fipast okkar leikmenn við það og þeir koma hérna upp og skora. Þetta er brandari sem er verið að bjóða uppá,“ sagði Ásgeir við Vísi eftir leik.


Tengdar fréttir

Ásgeir Örn: Þetta er brandari sem er verið að bjóða uppá

Ásgeir Örn Hallgrímsson var virkilega ósáttur þegar liðið tapaði með einu marki á móti Gróttu í Olís-deild karla í handbolta í kvöld. Haukar áttu erfitt uppdráttar allan leikinn en vafasamur dómur á loka mínútunni gerði útslagið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×