Körfubolti

„Held að það séu engar líkur að við höldum 8. sætinu“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Pétur Ingvarsson er ekkert alltof bjartsýnn fyrir framhaldið.
Pétur Ingvarsson er ekkert alltof bjartsýnn fyrir framhaldið. vísir/vilhelm

Pétur Ingvarsson, þjálfari Breiðabliks, var svekktur með tapið fyrir Grindavík í kvöld, 103-112. Hann sagði frammistöðuna í fyrri hálfleik hafa orðið Blikum að falli.

„Fyrri hálfleikurinn var dýr yfirhöfuð. Við reyndum að spila svæðisvörn, reyndum að hrista upp í þessu og það gekk ekki,“ sagði Pétur við Vísi eftir leik.

Blikar voru þrettán stigum undir í hálfleik, 43-56, en komu til baka í seinni hálfleik og voru á endanum ekki langt frá því að vinna leikinn.

„Við vorum aðeins ákveðnari í vörninni og gáfum þeim ekki eins mikið af opnum skotum og körfum við gerðum í fyrri hálfleik og þeir nýttu sér,“ sagði Pétur.

„Þeir settu svo stór skot undir lokin. Þeir skoruðu en svo fórum við í sókn og náðum ekki að skora. Þetta er svoleiðis.“

En er Pétur bjartsýnn á að Blikar haldi 8. sætinu og komist í úrslitakeppnina?

„Nei, ég held að það séu engar líkur á því,“ svaraði Pétur í óræðum dúr.

„Þetta er erfitt. Við erum búnir að tapa ansi mörgum leikjum og þegar sjálftraustið í mannskapnum er lítið getur verið erfitt að fá menn til að berjast og hafa trú. Það kemur vonandi. Glugginn er alveg að lokast.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


×