Sigurður var dæmdur í bann af HSÍ á dögunum vegna atviks sem átti sér stað eftir leik liðsins gegn Val í Olís-deild kvenna. Hann var sakaður um ósæmilega hegðun í garð starfsmanns Vals en var ekki dæmdur í bann fyrir það, heldur fyrir það hvernig hann brást við gagnrýni leikmanna liðsins.
„Ég ætla ekki að fara að gera mig að einhverjum píslavætti eða eitthvað svoleiðis, en þetta hefur bara verið erfitt, þungt og vont,“ sagði Sigurður í Sportpakkanum í kvöld.
„Ástæða þess að ég vil koma fram er að mér hefur bæði verið ráðlagt að halda mig svolítið fyrir utan þetta og það sé hættulegt að fara inn í samfélagsmiðlatal og eitthvað svona. En nú finnst mér þetta komið út í það að mér finnst ég verða aðeins að svara.“
„Það eru komnar þannig líkingar á mig að þetta er bara farið að há mér og fjölskyldunni þannig að ég vil aðeins fá að segja mína hlið á þessu og bara útskýra hluti.“
„Bara barnalegt og asnalegt og bara ljótt“
Þá segir Sigurður að hann hafi hringt í viðkomandi aðila eftir atvikið og beðist afsökunar á hegðun sinni.
„Mín hlið á þessu máli er að ég vinn með kvennfólk og er búinn að vera að vinna með kvennfólk núna í fimm ár sem íþróttakennari. Ég þarf að vanda mig og allt svoleiðis og ég hef ákveðnar agareglur og vinnureglur. En ég þarf stundum að taka utan um þær og ég þarf stundum að hugga og stundum að hrista þær til og annað. Þannig að það er snerting í þessu, það er alveg þannig, en ég hef passað mig.“
„Þegar maður er kominn með einhverjar líkingar við einhverja kynferðisbrotamenn einhversstaðar þá verð ég aðeins að stoppa. Þegar maður svo skítur í heyið og maður hefur óvart gert hluti, þá er bara lágmark að maður biðji afsökunar, sem að ég gerði í þessu tilfelli.“
„Ég hafði samband við viðkomandi aðila, þennan liðsstjóra. Ég bað hana afsökunar á þessu og mér þykir bara ömurlegt hvernig hún upplifði þetta, en ég virði það hundrað prósent. Ég heyri líka í umræddum leikmanni strax eftir það símtal. Þær eru nú mæðgur og ég fékk leyfi hjá móðurinni að tala við hana af því ég sagði henni að fokka sér. Það er bara barnalegt og asnalegt og bara ljótt,“ sagði Sigurður að lokum.