Körfubolti

Gamli skólinn rak Ewing

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Patrick Ewing er hann var kynntur sem nýr þjálfari Georgetown.
Patrick Ewing er hann var kynntur sem nýr þjálfari Georgetown. getty/Mitchell Layton

Gamla New York Knicks hetjan Patrick Ewing hefur verið rekinn úr starfi þjálfara Georgetown háskólans.

Georgetown steinlá fyrir Villanova, 80-48, í bandaríska háskólakörfuboltanum í fyrradag. Það var kornið sem fyllti mælinn hjá forráðamönnum Georgetown sem létu Ewing fara.

Ewing er einn besti leikmaður í sögu Georgetown og var svo ráðinn þjálfari skólans fyrir sex árum. Árangurinn undir hans stjórn var ekki sem skildi. Ewing stýrði Georgetown í 184 leikjum. Sjötíuogfimm þeirra unnust en 109 töpuðust. Georgetown komst aðeins einu sinni í Marsfárið, úrslitakeppni bandaríska háskólakörfuboltans, undir stjórn Ewings.

Áður en Ewing var ráðinn þjálfari Georgetown var hann aðstoðarþjálfari hjá Washington Wizards, Houston Rockets, Orlando Magic og Charlotte Hornets í NBA-deildinni.

Ewing er þekktastur fyrir árin fimmtán sem hann lék með New York Knicks í NBA. Á þeim tíma komst liðið tvisvar í úrslit um meistaratitilinn (1994 og 1999). Knicks valdi Ewing fyrstan í nýliðvalinu 1985 og ári seinna var hann valinn nýliði ársins í NBA. Hann spilaði ellefu stjörnuleiki á ferlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×