Körfubolti

Sigrar hjá Njarðvík og Val

Smári Jökull Jónsson skrifar
Aliyah Collier átti góðan leik fyrir Njarðvík.
Aliyah Collier átti góðan leik fyrir Njarðvík. Vísir/Vilhelm

Njarðvík vann góðan sigur á Fjölni þegar liðin mættust í Subway-deild kvenna í körfuknattleik í kvöld. Þá vann Valur stórsigur á ÍR.

Njarðvík sat í fjórða sæti Subway-deildarinnar fyrir leikinn í kvöld en það er síðasta sætið inn í úrslitakeppnina. Fjölnir var hins vegar í 6.sætinu en liðið hefur verið að spila vel að undanförnu eftir að Brittany Dinkins gekk til liðs við liðið.

Njarðvík tók frumkvæðið í byrjun og leiddi 31-20 eftir fyrsta leikhlutan. Fjölniskonur vöknuðu hins vegar í öðrum leikhluta og minnkuðu muninn fyrir hlé. Staðan í hálfleik 45-38 fyrir Njarðvík.

Leikurinn var áfram jafn og spennandi í síðari hálfleik. Fjölnisliðið minnkaði muninn í fjögur stig í þriðja leikhluta en annars munaði yfirleitt um tíu stigum á liðunum.

Það voru síðan Njarðvíkurkonur sem höfðu sigur að lokum. Lokatölur 80-73 og þær styrkja þar með stöðu sína í fjórða sætinu. Aliyah Collier var stigahæst hjá Njarðvík með 20 stig og tók þar að auki níu fráköst og gaf sex stoðsendingar. Brittany Dinkins skoraði 24 stig fyrir Fjölni.

Ásta Júlía átti góðan leik hjá Val.Vísir/Hulda Margrét

Á heimavelli ÍR tóku Breiðhyltingar á móti Val. ÍR er í neðsta sæti deildarinnar á meðan Haukar eru í toppbaráttu og því var fyrirfram búist við frekar ójöfnum leik.

Sú varð raunin. Valur leiddi 48-34 í hálfleik en bætti í eftir hlé. ÍR skoraði aðeins fimm stig í þriðja leikhluta og að lokum munaði meira en fjörtíu stigum á liðunum. Lokatölur 94-53.

Ásta Júlía Grímsdóttir skoraði 22 stig hjá Val og var stigahæst í þeirra liði. Greta Uuprus og Aníka Linda Hjálmarsdóttir voru stigahæstar hjá ÍR með tíu stig hvor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×