Körfubolti

Skraut­leg sigur­karfa Rand­le, West­brook getur ekki unnið og Jókerinn í stuði

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Julius Randle fagnar sigurkörfunni.
Julius Randle fagnar sigurkörfunni. Eric Espada/Getty Images

Fjöldi leikja fór fram í NBA-deildinni í körfubolta í nótt. New York Knicks vann áttunda leikinn í röð þökk sé Julius Randle, Sacramento Kings sá til þess að Russell Westbrook hefur ekki unnið leik sem leikmaður Los Angeles Clippers og Nikola Jokić náði enn á ný þrefaldri tvennu í sigri Denver Nuggets.

New York Knicks vann hádramatískan tveggja stiga sigur á Miami Heat þar sem skrautleg þriggja stiga karfa Julius Randle tryggði sigurinn en síðasta sókn Knicks virtist vera að renna út í sandinn. Lokatölur 122-120 New York í vil.

Randle gerði sér lítið fyrir og skoraði 43 stig í leiknum ásamt því að taka 9 fráköst og gefa 3 stoðsendingar. Jalen Brunson kom þar á eftir með 25 stig, 8 stoðsendingar og 2 fráköst. Í liði Miami skoraði Jimmy Butler 33 stig, tók 8 fráköst og gaf 5 stoðsendingar.

Sacramento Kings og Los Angeles Clippers mættust nýverið í ótrúlegum leik þar sem Kings unnu 176-175. Um var að ræða næst stigahæsta leik í sögu deildarinnar. Leikur kvöldsins var heldur rólegri en þó var mikið skorað og mikil dramatík. Fór það svo að Kings unnu eins stigs sigur, 128-127.

De‘Aaron Fox var stigahæstur hjá Kings með 33 stig ásamt því að gefa 7 stoðsendingar og taka 7 fráköst. Þar á eftir kom Domantas Sabonis með 23 stig, 10 fráköst og 7 stoðsendingar. Paul George var stigahæstur hjá Clippers með 28 stig, 8 stoðsendingar og 7 fráköst. Westbrook sjálfur skoraði 27 stig, gaf 10 stoðsendingar og tók 2 fráköst.

Jókerinn fór hamförum í öruggum sigri Denver Nuggets á Memphis Grizzlies, lokatölur 113-97. Jokić skoraði 18 stig, tók 18 fráköst og gaf 10 stoðsendingar. Stigahæstur í liði Nuggets var hins vegar Michael Porter Jr. með 26 stig ásamt því að taka 8 fráköst. Hjá Grizzlies var Ja Morant með 27 stig, 10 stoðsendingar og 4 fráköst.

Los Angeles Lakers verður án LeBron James næstu vikurnar og það sást þegar liðið tapaði fyrir Minnesota Timberwolves á heimavelli í nótt, lokatölur 102-110. Gestirnir voru án Karl Anthony Towns en það kom ekki að sök. Lakers voru farnir að nálgast umspilssæti en tekst alltaf að misstíga sig á ögurstundu.

Anthony Davis var stigahæstur í liði Lakers með 38 stig á meðan Rudy Gobert skoraði 22 fyrir Minnesota og tók 14 fráköst.

Boston Celtics hefur misst toppsætið í Austurdeildinni og liðið henti frá sér 28 stiga forystu þegar það tapaði með tíu stiga mun fyrir Brooklyn Nets í nótt, lokatölur 115-105 Nets í vil. Mikal Bridges skoraði 38 stig í liði Nets og tók 10 fráköst á meðan Jaylen Brown skoraði 35 stig í liði Boston.

Klay Thompson skoraði 27 stig í níu stiga sigri Golden State Warriors á New Orleans Pelicans, 108-99. CJ McCollum var stigahæstur hjá Pelicans með 25 stig.

Devin Booker skoraði 35 stig, Josh Okogie skoraði 25 og Kevin Durant 20 í öruggum sigir Phoenix Suns á Chicago Bulls, lokatölur 125-104. DeMar DeRozan var stigahæstur í tapliðinu með 31 stig.

Önnur úrslit

Charlotte Hornets 106-117 Orlando Magic

Atlanta Hawks 129-111 Portland Trail Blazers

Oklahoma City Thunder 130-103 Utah Jazz




Fleiri fréttir

Sjá meira


×