Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - KA 30-26 | Stjörnumenn upp í þriðja sætið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tandri Már Konráðsson og félagar í Stjörnunni hafa unnið tvo leiki í röð.
Tandri Már Konráðsson og félagar í Stjörnunni hafa unnið tvo leiki í röð. vísir/diego

Stjarnan komst upp í 3. sæti Olís-deildar karla með sigri á KA, 30-26, í Garðabænum í kvöld. Eftir jafnan fyrri hálfleik voru Stjörnumenn fetinu framar í þeim seinni og unnu sinn annan sigur í röð.

Starri Friðriksson skoraði tíu mörk fyrir Stjörnuna og Hergeir Grímsson fimm. Sigurður Dan Óskarsson varði sextán skot í marki Garðbæinga, eða 39 prósent þeirra skota sem hann fékk á sig.

Ólafur Gústafsson var langatkvæðamestur í liði KA með níu mörk. Markverðir liðsins áttu báðir skínandi góðan leik. Nicholas Satchwell varði fjórtán skot (41 prósent) og Bruno Bernat átta (44 prósent).

KA-menn hafa nú tapað fjórum leikjum í röð og eru aðeins þremur stigum frá fallsæti. Miðað við þennan leik eru þeir þó ekki búnir að kasta inn hvíta handklæðinu því þeir reyndu og reyndu og það vantaði ekkert upp á framlagið. Þeir voru bara ekki nógu góðir og vantar sárlega sjálfstraust.

Fyrri hálfleikur var einstaklega rislítill og dauft yfir liðunum. Leikurinn var þó jafn og aldrei munaði meira en tveimur mörkum á liðunum. Staðan eftir fyrri hálfleik var 13-12, Stjörnunni í vil.

Hjá KA voru tveir leikmenn í sérflokki. Ólafur, sem skoraði fimm mörk, og Nicholas sem var magnaður í marki gestanna. Hann varði þrettán skot, eða helming þeirra skota sem hann fékk á sig. Lengi framan af fyrri hálfleik var sá færeyski með sextíu prósent markvörslu.

Starri skoraði sex af þrettán mörkum Stjörnunnar í fyrri hálfleik og Sigurður Dan var flottur í markinu. Hann varði níu skot, eða 43 prósent af skotunum sem hann fékk á sig.

Liðin héldust í hendur framan af seinni hálfleik en í stöðunni 16-16 steig Stjarnan á bensíngjöfina, skoraði fjögur mörk í röð og náði 20-16 forystu. KA svaraði með þremur mörkum í röð og setti pressu á Stjörnuna, 20-19.

Jens Bragi Bergþórsson minnkaði muninn aftur í eitt mark, 21-20, en Stjörnumenn skoruðu þá fjögur mörk gegn einu og náðu fjögurra marka forskoti, 25-21, þegar níu mínútur voru eftir.

Gestirnir frá Akureyri gáfust ekki upp, minnkuðu muninn í 26-25 og leikurinn gríðarlega spennandi.

Á lokakaflanum tók Sigurður Dan svo til sinna ráða og varði tvisvar sinnum þegar KA gat minnkað muninn aftur í eitt mark. Aðalsteinn Örn Aðalsteinsson kláraði svo leikinn þegar hann skoraði 28. mark Stjörnunnar mínútu fyrir leikslok. Garðbæingar kláruðu svo leikinn, 30-26.

Patrekur: Ánægður með að menn héldu plani og höfðu trú á því

Patrekur Jóhannesson þungt hugsi.Vísir/Diego

Patrekur Jóhannesson, þjálfari Stjörnunnar, var sáttur með sigurinn á KA í kvöld.

„Ég vissi að þetta yrði erfiður leikur vegna stöðunnar hjá KA. Þeir eru að berjast fyrir lífi sínu. Við vildum líka fara hærra upp töfluna,“ sagði Patrekur.

„Þetta var jafn leikur. Við klikkuðum á einhverjum tólf færum í fyrri hálfleik en skoruðum samt þrjátíu mörk. Við vorum alltaf skrefinu á undan og hefðum kannski átt að loka þessu fyrr. Þetta var ekkert okkar besti leikur en sigur.“

En hvað var Patrekur sáttastur með í leiknum í kvöld?

„Að klára þetta. Þórður Tandri [Ágústsson], einn besti línumaður deildarinnar, var veikur og við leystum það. Pétur Árni [Hauksson] var ekki með svo Tandri [Már Konráðsson] spilaði mikið hægra megin. Ég er ánægður með að menn héldu plani og höfðu trú á því,“ sagði Patrekur.

Sigurður Dan Óskarsson varði vel í marki Stjörnunnar í kvöld og hefur staðið sig með mikilli prýði að undanförnu.

„Siggi er búinn að vera hjá okkur í þónokkurn tíma. Þetta er yndislegur strákur sem leggur mikið á sig og hefur bara beðið eftir tækifærinu. Hann hefur staðið sig virkilega vel og ég vona að það verði áfram,“ sagði Patrekur að lokum.

Jónatan: Okkur vantar klárlega stig

Jónatan Magnússon og strákarnir hans eru í erfiðri stöðu.vísir/hulda margrét

Jónatan Magnússon, þjálfari KA, sagði að herslumuninn hefði vantað hjá sínum mönnum til að vinna Stjörnuna í kvöld.

„Það vantaði ekki mikið upp á. Þetta var hörkuleikur og við vorum vel inni í honum. Þetta voru bara nokkur atriði í sókninni, í yfirtölunni undir lokin,“ sagði Jónatan eftir leik.

„Það er svolítið mótlæti og þá detta hlutirnir ekki með þér, fráköst og svona. Það er alvöru mótbyr. En margt í frammistöðunni var gott fannst mér. Það vantaði herslumuninn.“

Ekki var hægt að skynja uppgjöf í KA-mönnum í kvöld þótt illa hafi gengið að undanförnu.

„Mér fannst margt í leiknum okkar sem var gott, hvað varðar baráttu og menn að leggja sig fram. Það eru tvö til þrjú atriði sem manni líður eins og hafi fallið á móti okkur. En þú þarft líka að skapa það sjálfur. Við vorum sjálfum okkur verstir í ákvörðunum,“ sagði Jónatan.

„Við þurfum að skoða þennan leik og vinna í okkar hlutum áfram. Okkur vantar klárlega stig. Við ætluðum númer eitt að mæta til leiks og ekki missa hausinn eins og hefur gerst. Við höfum brotnað við fyrsta mótlæti en mér fannst það ekki gerast í dag. Það er framfaraskref. Við lögðum okkur virkilega vel fram og börðumst fyrir þessu. Það gekk ekki og þá þurfum við að reyna aftur í næsta leik.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira