Umfjöllun og viðtöl: ÍBV - Aftur­elding 32-26 | Stór sex marka heimasigur Eyjamanna

Einar Kárason skrifar
Haukar - ÍBV Olís Deild karla haust 2022
Haukar - ÍBV Olís Deild karla haust 2022

ÍBV og Afturelding voru nánast hnífjöfn í Olís-deild karla í handbolta og mættust í mikilvægum slag í Vestmannaeyjum.

Leikurinn fór af stað með látum en mörkin létu á sér standa. Eyjamenn brutu ísinn á þriðju mínútu og skoruðu fyrstu þrjú mörk leiksins. Gestirnir komu boltanum hinsvegar ekki í netið fyrr en eftir tæpar níu mínútur. Næsta mark Mosfellinga kom í næstu sókn og staðan 3-2 eftir tíu mínútna leik. 

Blessunarlega fyrir áhofendur á staðnum og heima jókst markaskorunin eftir því sem leið á. Eftir um tuttugu mínútna leik var staðan 11-6 fyrir heimamenn sem héldu Aftureldingu í hæfilegri fjarlægð megnið af fyrri þrjátíu mínútunum. Gestirnir náðu fínum kafla stuttu fyrir hálfleik en en þeir náðu að brúa bilið í tvö mörk í stöðunni 13-11. ÍBV tók þá við keflinu og gerði þrjú mörk gegn einu á síðustu tveimur mínútunum.

Eyjamenn fóru inn í hálfleikinn fjórum mörkum yfir, 16-12, og spennandi þrjátíu mínútur framundan.

ÍBV hóf síðari hálfleikinn af krafti og juku forskot sitt í sjö mörk á fyrstu átta mínútunum. Heimamenn gerðu gríðarlega vel varnarlega og tókst að halda dampi og létu gestina hafa fyrir því að koma sér í almennileg skotfæri.

Þrátt fyrir að staðan hafi verið örðin svört fyrir Mosfellinga gáfust þeir ekki upp. Þegar líða tók á hálfleikinn átti Afturelding góðan kafla þar sem þeir skoruðu fjögur mörk gegn engu og minnkuðu muninn úr 27-21 í 27-25. Tveggja marka munur og innan við fimm mínútur eftir. 

Því miður fyrir gestina reyndist það eins gott og það varð en ÍBV skoraði næstu tvö mörk ásamt því að Afturelding missti mann af velli. Lokamínúturnar voru því einungis formsatriði fyrir heimamenn sem kláruðu verkefnið með stæl. Svo fór að leikar enduðu með sex marka sigri Eyjamanna, 32-26.

Af hverju vann ÍBV?

Bæði lið byrjuðu rólega en þó voru Eyjamenn öflugra liðið á vellinum. Náðu forskoti snemma leiks sem gestunum tókst að saxa á en alltaf náði ÍBV að halda Aftureldingu tveimur eða fleiri mörkum frá sér. Varnarleikur ÍBV var í heildina góður í dag. 

Hverjir stóðu upp úr?

Dagur Arnarsson og Sigtryggur Daði Rúnarsson fóru mikinn í sóknarleik Eyjamanna með sex mörk hvor en Árni Bragi Eyjólfsson í liði gestanna var markahæstur allra með átta mörk, þar af sex úr vítum.

Hvað gekk illa?

Afturelding mun fara yfir hvað fór úrskeiðis í upphafi beggja hálfleika þar sem þeim gekk afar illa að koma boltanum í mark ÍBV. 

Hvað gerist næst?

Eyjamenn heimsækja FH í Kaplakrikann fimmtudaginn 2.mars en degi síðar fá Mosfellingar Hörð frá Ísafirði í heimsókn.

Magnús Stef: Það er kúnst að halda forustu

Magnús Stefánsson var harður í horn að taka sem leikmaður.Vísir/vilhelm

,,Strákarnir eiga hrós fyrir sinn leik í dag. Þeir voru geggjaðir," sagði Magnús Stefánsson, aðstoðarþjálfari ÍBV, eftir leik. ,,Við vorum komnir í þægilega stöðu snemma leiks sem gefur okkur ákveðið öryggi fram á við, að vita það að við séum að eiga góðan dag varnarlega. Þetta helst allt í hendur. Við duttum aðeins niður varnarlega um miðjan síðari hálfleik áður en við settum aftur í gír."

,,Það er kúnst að halda forustu eftir að þú ert búinn að ná henni. Að slaka ekki á eða fara ekki inn í þægindarammann og missa fókus. Mér finnst strákarnir hafa staðist prófið hvað það varðar í dag. Öruggir bæði varnarlega og sóknarlega. Mig langar að hrósa varnarleiknum sérstaklega eftir daginn."

Þrír leikir. Þrír sigrar

,,Við erum hrikalega sáttir, sagði Magnús spurður út í fyrstu þrjá leikina eftir áramót. ,,Við vitum hvað í okkur býr og ég held að við höfum unnið mjög vel í pásunni, sem var óvenju löng í þetta skiptið. Við unnum í okkar málum."

Meiðsli eru að hrjá leikmannahóp Eyjamanna en Magnús hefur ekki hugsað sér að hjálpa til inni á vellinum. ,,Nei, það skip hefur siglt," sagði hann glottandi. ,,Við eigum menn sem stíga upp í stað þeirra sem eru frá. Liðið er bara þannig að það kemur maður í manns stað. Svo þegar þeir koma til baka og fyrir vikið situr eftir meiri breidd."

Gunnar: Þetta var bras í allan dag

Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar.Vísir/Hulda Margrét

Gunnar Magnússon, þjálfari Mosfellinga, var að vonum vonsvikinn eftir leik. ,,Við ætluðum að sjálfsögðu að ná í sigur og trúðum því að við gætum það. Mér fannst við í heildina slakir og náðum okkur ekki á strik. Hvort það vantaði einhverja trú frá upp hafi veit ég ekki. Þetta var einn okkar slakasti leikur og ÍBV var bara betri á öllum sviðum. Þetta var ekki gott í dag."

Vond byrjun

,,Við þurfum að fara yfir leikinn aftur. Mér fannst við ekki komast í takt í byrjun. Við erum lengi í gang og það er dýrt hérna í Eyjum. Við náum köflum og komumst inn í leikinn en förum þá að gera það sem við ætluðum ekki að gera. Henda boltanum í hendurnar á þeim og fáum hraðaupphlaup í bakið. Svo komu kaflar þar sem við vorum í basli varnarlega."

,,Þetta var bras í allan dag og við náum okkur aldrei almennilega á strik. Við vorum ólíkir okkur sjálfum."

,,Ég er ánægður með að við gáfumst ekki upp og komum til baka. Með smá heppni hefðum við getað gert þetta að spennu í lokin en við þurfum að fara vel yfir leikinn. Svona frammistaða er ekki ásættanleg en það er stutt í næsta leik og við þurfum að koma sterkari í þann leik. Nú eru komnir tveir tapleikir í röð og við þurfum að koma okkur aftur á sigurbraut," sagði Gunnar að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira