Körfubolti

Lakers gaf Abdul-Jabbar demants­hring eftir að hann missti stiga­metið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James tekur í höndina Kareem Abdul-Jabbar sem var mættur til að sjá James slá stigametið sitt.
LeBron James tekur í höndina Kareem Abdul-Jabbar sem var mættur til að sjá James slá stigametið sitt. AP/Ashley Landis

LeBron James tók stigametið í NBA-deildinni í körfubolta af Kareem Abdul-Jabbar í síðustu viku en sá gamli stóð ekki alveg tómhentur á eftir.

Lakers lét nefnilega sérhanna hring fyrir Abdul-Jabbar til minningar um að hann átti stigametið í 38 ár.

Abdul-Jabbar mætti á leikinn sem LeBron James sló metið hann og óskaði honum til hamingju inn á vellinum. Hann hafði átt stigametið allan tímann sem James hafði verið á þessari jörðu.

Lakers vildi passa upp á gamla stigamethafann og gaf honum því þessa rausnarlegu gjöf.

Skartgripasmiðurinn Jason Arasheben hannaði hringinn sem var gerður á táknrænan hátt í kringum staðreyndir frá stigametinu.

Á hringnum má finna 578 lýtalausa hvíta demanta. Framan á hringnum má sjá töluna 33 sem var treyjunúmer Abdul-Jabbar og þar má sjá líka mynd af honum að taka hið fræga skyhook skot.

Abdul-Jabbar skoraði stóran hluta stiga sína með slíku skoti þar á meðal þegar hann sló stigametið á sínum tíma.

Abdul-Jabbar tók stigametið af Wilt Chamberlain 5. apríl 1984 og átti það í 38 ár. Báðar þær tölur eru á hringum og þar má líka finna töluna 38 (ár) á hringnum sem og 38.387 sem var heildarfjöldi stiga sem hann skoraði í NBA-deildinni.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×