Körfubolti

„Virki­lega kær­komið og söknuðurinn var orðinn mikill“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Martin Hermannsson er loksins farinn að æfa á ný eftir löng og erfið meiðsli.
Martin Hermannsson er loksins farinn að æfa á ný eftir löng og erfið meiðsli. Mike Kireev/NurPhoto via Getty Images

Besti körfuknattleiksmaður þjóðarinnar, Martin Hermannsson, er loksins farinn að æfa á nýjan leik en hann sleit krossband í hné fyrir átta mánuðum síðan.

„Það er eiginlega bara svolítið magnað að það sé komið að þessu núna. Maður er búinn að vera að tala um það að maður geti ekki beðið eftir að byrja að skjóta og svo fer maður að tala um að maður geti ekki beðið eftir að byrja að hoppa,“ sagði Martin í samtali við Stöð 2 í gær.

„Svo er það komið og nú er maður bara mættur á æfingar, sem er alveg svolítið magnað. En það er bara virkilega kærkomið og söknuðurinn var orðinn mjög mikill af körfubolta.“

Það reynir mikið á andlegu hliðina að lenda í svona erfiðum meiðslum, en Martin segir að það hafi verið auðveldara fyrir sig að glíma við meiðslin en hann átti von á.

„Það hefur bara gengið alveg fáránlega vel ef ég á að vera alveg hreinskilinn. Mér fannst þetta taka miklu miera á fólkið í kringum mig heldur en á sjálfan mig.“

„Hefði þetta gerst þegar ég var að byrja í atvinnumennsku eða annað árið mitt eða eitthvað svoleiðis þá hefðu þetta auðvitað verið gríðarleg vonbrigði. Ég held að það hefði tekið miklu meira á mann heldur en núna. Maður er búinn að koma sér á stað sem manni hefur dreymt umm og búinn að vera á hæsta leveli í Evrópu núna í fjögur ár. Leikjaálagið er búið að vera gjörsamlega galið seinustu ár hjá mér þannig ég horfði eiginlega bara á þetta sem smá pásu - smá hálfleik á mínum ferli.“

„Ég er búinn að vera að glíma við alls konar lítil meiðsli. Ég náði einhvernveginn alveg að vinna í líkamanum sem ég hef ekki getað gert síðan ég var 16 ára því það hefur bara verið landslið eða félagslið yfir allt árið. Þannig ég var kannski ekki feginn en horfði bara á þetta sem smá hálfleik á mínum ferli og planið er bara að koma jafn góður, ef ekki betri til baka. Ég finn alveg að ég get gert það,“ sagði Martin að lokum.

Klippa: Martin Hermannsson loksins farinn að æfa á nýjan leik



Fleiri fréttir

Sjá meira


×