Skoðun

Þróun leik­skóla­starfsins; Tíma­móta­skref í leik­skólum Hafnar­fjarðar

Bjarney Grendal Jóhannesdóttir og Margrét Vala Marteinsdóttir skrifa

Framsókn í Hafnarfirði hefur síðan í upphafi síðasta kjörtímabils lagt áherslur á að endurskoða þurfi starfsumhverfi í leikskólum frá grunni, m.a. með tilliti til vinnuaðstæðna, skilgreiningu á leikskóladeginum, hávaðamengunar, fermetrafjölda á skilgreindu leiksvæði og barngilda. Við höfum talað fyrir því og haft trú á að það myndi hvetja fleira fagfólk til að vinna í leikskólum og auka nýliðun í stétt leikskólakennara.

Leikskólaárin eru mikil mótunarár í þroska og menntun barna og er leikskólinn fyrsta skólastigið. Þar er lagður grunnur að áframhaldandi námi og starfi barna til framtíðar. Inni á leikskólum starfar öflugur hópur fagmenntaðra kennara ásamt mikilvægum hópi ófaglærðra eða leiðbeinenda og markmið okkar hefur verið og er að skilgreina betur, styðja við og styrkja starf þeirra og bæta starfsaðstæður.

Þverfagleg samvinna

Í Hafnarfirði, í samstarfi Framsóknar og Sjálfstæðisflokks, er verið að stíga tímamótaskref í eflingu og þróun á leikskólastarfi til framtíðar. Markmið okkar eru að fjölga fagfólki í leikskólum sveitarfélagsins og efla faglegt starf þeirra, styðja við og styrkja ófaglærða starfsmenn og auka sveigjanleika í starfi og vistunartíma. Þessi mikilvæga þróun leiðir m.a. til aukins samræmis á milli fyrstu skólastiganna og mótunar á leikskólaumhverfi sem svarar betur þörfum skólasamfélagsins.

Stór hópur fólks vann að þessari nýju nálgun í leikskólamálum í Hafnarfirði sem er þó bara fyrsta skrefið í vinnu starfshópsins að þróun leikskólastarfs og bættum starfsaðstæðum. Starfshópurinn samanstendur af fulltrúum frá Kennarasambandi Íslands, leikskólastjórum, leikskólakennurum, ófaglærðum starfsmönnum, foreldrum og Hlíf stéttarfélagi ásamt starfsfólki frá mennta- og lýðheilsusviði og fulltrúum frá pólitíkinni. Í svona stóru og mikilvægu verkefni er nauðsynlegt að fá alla sem hlut eiga að máli að borðinu til að fá yfirsýn yfir ólík sjónarmið en enginn þekkir starfsumhverfi leikskólans betur en sá sem þar starfar.

Í hverju felst þróunin?

Það sem búið er að gera:

Í þróun leikskólastarfsins felst m.a. útfærsla á styttingu vinnuvikunnar. Hjá leikskólakennurum verður vinnuvikan 36 stundir á viku en viðvera áfram 40 stundir á viku yfir árið. Með þessari uppsöfnun verða 26 dagar á ári teknir út í svokölluðum ,,Betri vinnutíma í leikskólum” um jól, páska, sumar og í vetrarfríi auk daga sem veittir verða til endurmenntunar og færist því skólaár leikskólans nær því sem tíðkast í grunnskólum.

Ófaglærðir taka sína vinnutímastyttingu út vikulega en þeir geta nú valið að skrifa undir nýtt starfsheiti, leikskóla- og frístundaliði. Með því hækka laun þeirra um nokkra launaflokka og verða því í samræmi við starfsheiti í grunnskólum. Einnig munu ófaglærðir í leikskóla halda föstum yfirvinnutímum sínum áfram. Starf þeirra verður það sama en þeir þurfa þó að taka námskeið í haust, á launum, sem styrkir þá í starfi sem leikskóla- og frístundaliðar. Þennan hóp viljum við efla og nú þegar er töluverður stuðningur í boði fyrir þá sem vilja fara og nema leikskólakennarafræðin meðfram vinnu.

Það sem er framundan:

Í þróun leikskólastarfsins felst einnig skýrari mótun og styrking á faglegu starfi innan leikskólans með áherslu á námið í gegnum leik og starf fyrri hluta dags en skipulagt frístundastarf seinni hluta dags. Skipulag leikskóladagsins verður þá í svipaðri mynd og í grunnskólanum þar sem nemendur á yngsta stigi eru í kennslustundum fram yfir hádegi en býðst að þeim loknum að fara í frístund. Með þessu stillum við af starfstíma í leik- og grunnskólum bæjarins og færum þannig starfsumhverfi skólanna nær hvort öðru og höldum jöfnu flæði á milli skólastiga.

Góða ferð í átt til framtíðar

Það hefur lengi verið hjartans mál hjá okkur í Framsókn að bæta starfsaðstæður í leikskólum Hafnarfjarðar og hlúa að bæði starfsfólki og börnum. Okkur þykir því mjög vænt um og erum afar stolt af því að á dögunum hlaut Hafnarfjarðarbær Orðsporið 2023, hvatningarverðlaun leikskólans, fyrir að “stíga það framsækna skref að stilla af starfstíma leik- og grunnskóla og vera öðrum sveitarfélögum fyrirmynd með því að sýna gott fordæmi”, eins og segir á viðurkenningarskjalinu. Við erum farin af stað í vegferð og eru hvatningarverðlaun leikskólans svo sannarlega gott veganesti fyrir okkur í þá ferð og jafnframt staðfesting á því að við erum á réttri leið. Leið til góðra verka, sem munu gera hafnfirska leikskóla framúrskarandi og setja þá í flokk með eftirsóttustu leikskólum landsins að starfa í.

Bjarney Grendal Jóhannesdóttir, varaformaður fræðsluráðs í Hafnarfirði.

Margrét Vala Marteinsdóttir, bæjarfulltrúi Framsóknar í HafnarfirðiAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Leikskólavandinn?

Hópur leikskólakennara og starfsfólks leikskóla í Reykjavík skrifar

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.