Handbolti

Róbert: Ekki nógu margir sem hittu á daginn sinn í dag

Þorsteinn Hjálmsson skrifar
Róbert Gunnarsson á hliðarlínunni í leik kvöldsins
Róbert Gunnarsson á hliðarlínunni í leik kvöldsins Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Róbert Gunnarsson þjálfari Gróttu var vitaskuld sár og svekktur eftir tap hans manna gegn Stjörnunni í Olís-deildinni í kvöld. Stjarnan vann fjögurra marka sigur eftir jafnan leik.

„Það er góð spurning. Ég veit það eiginlega ekki, ég verð að skoða þetta betur. Gekk klárlega ekki upp eins og við ætluðum, þannig að ég verð bara að skoða það,“ sagði Róbert Gunnarsson, þjálfari Gróttu, spurður að því hvað hann tæki út úr leiknum í kvöld.

Róbert bætti við að það vantaði hjá sínum mönnum að klára leikina almennilega.

„Við erum bara að kasta aðeins frá okkur boltanum, sama í fyrri hálfleik. Við áttum bara að vera yfir í fyrri hálfleik, við vorum að spila mjög vel, jafn leikur. Mér fannst aðeins vanta upp á svona killerinn í þetta, það hefur bara verið það svolítið.“

Hann sagði ekkert hafa vantað upp á baráttu sinna manna í kvöld.

„Við erum að spila á móti hörku góðu liði og strákarnir berjast, það er ekkert nýtt það vita það allir. Þetta var kannski bara ekki nógu margir sem hittu á daginn sinn í dag,“ sagði Róbert að lokum niðurlútur og hundfúll eftir tap sinna manna í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×