Körfubolti

Elvar skoraði fimm í Meistaradeildarsigri

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Elvar Már Friðriksson í leik með íslenska landsliðinu.
Elvar Már Friðriksson í leik með íslenska landsliðinu. VÍSIR/VILHELM

Landsliðsmaðurinn Elvar Már Friðriksson og félagar hans í Rytas Vilnius unnu góðan sjö stiga sigur er liðið tók á móti tyrkneska liðinu Bahcesehir í Meistaradeild Evrópu í körfubolta í kvöld, 95-88.

Heimamenn í Rytas byrjuðu leikinn af miklum krafti og leiddu með tólf stigum að fyrsta leikhluta loknum. Liðið jók forystu sína svo lítillega fyrir hálfleikshléið, en staðan var 48-31 þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Gestirnir söxuðu hægt og rólega á forystu Elvars og félaga í síðari hálfleik og náðu að minnka muninn niður í fimm stig. Nær komust þeir þó ekki og niðurstaðan varð sjö stiga sigur Rytas Vilnius, 95-88.

Elvar hafði hægt um sig í stigaskori fyrir heimamenn og skoraði fimm stig fyrir liðið, en hann tók einnig tvö fráköst og gaf fjórar stoðsendingar. Rytas er nú með þrjú stig eftir tvo leiki í J-riðli Meistaradeildarinnar og trónir á toppi riðilsins. Það mun þó breytast á morgun þegar Manresa og Bonn mætast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×