Körfubolti

„Embi­id hefur aldrei verið í betri stöðu til að sækja þessa MVP styttu“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Joel Embiid hefur verið frábær að undanförnu.
Joel Embiid hefur verið frábær að undanförnu. Mitchell Leff/Getty Images

Liðurinn „Nei eða Já“ var að sjálfsögðu á sínum stað í Lögmál leiksins í gær. Farið var yfir hvort New Orleans Pelicans væri í brasi, hvort Joel Embiid væri mögulega verðmætasti leikmaður deildarinnar um þessar mundir og margt annað.

Í Lögmál leiksins er farið yfir það helsta sem gerst hefur í NBA deildinni í körfubolta. Þá virkar „Nei eða Já“ þannig að Kjartan Atli Kjartansson, þáttastjórnandi, setur fram staðhæfingu eða spurningu sem sérfræðingar þáttarins þurfa að svara játandi eða neitandi ásamt því að rökstyðja svar sitt.

New Orleans Pelicans missir af úrslitakeppninni

„Já, missa af úrslitakeppninni. Það er vesen, detta inn í umspilið. Haldast í topp 10 og fá að spila í umspilinu. Ég hef áhyggjur af þessu Zion Williamson dóti og áhyggjur af þeim bara, almennt. Ekki góð ára yfir þessu,“ sagði Sigurður Orri Kristjánsson.

„Brandon Ingram, búið að vera meiðslavesen á honum allt tímabilið. Þeir fara í umspilið. Get ímyndað mér að þeir detti þar úr leik,“ bætti Tómas Steindórsson við.

Joel Embiid er í topp þrír í keppninni um MVP styttuna eftirsóttu

„Já, akkúrat núna. Hann er á eftir Nikola Jokić, hann er jafnvel bara í öðru,“ sagði Tómas eftir að hugsa sig um hverjir væru betri en Embiid og Jokić um þessar mundir.

„Þetta er Jokić, Jayson Tatum og Embiid akkúrat núna. Kjósendur eru með stutt minni, þau munu muna eftir þessum leik sem Embiid tók á Jokić. Menn muna eftir svona. Embiid hefur aldrei verið í betri stöðu til að sækja þessa MVP styttu,“ sagði Sigurður Orri.

„Ég held bara að ef það væri kosið núna, eftir þennan leik, myndi hann vinna,“ skaut Kjartan Atli inn í áður en Tómas sagðist hreinlega halda með Embiid í baráttunni um MVP [Verðmætasti leikmaður deildarinnar].

Annað sem var farið yfir í „Nei eða Já“ að þessu sinni var hvort Damian Lillard ætti að klára ferilinn í Portlan Trail Blazers, þá var farið yfir hversu góður Scottie Pippen væri í NBA-deild dagsins í dag og hvaða leikmenn frá 90´s sérfræðingarnir væru til í að sjá í deildinni í dag.

Klippa: Körfuboltakvöld: Embi­id hefur aldrei verið í betri stöðu til að sækja þessa MVP styttu

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×