Körfubolti

Stórsigrar hjá Njarðvík og Val

Smári Jökull Jónsson skrifar
Aliyah Collier átti góðan leik fyrir Njarðvík.
Aliyah Collier átti góðan leik fyrir Njarðvík. Vísir/Hulda Margrét

Njarðvík og Valur unnu stóra sigra í leikjum sínum í Subway-deild kvenna í körfuknattleik í kvöld. Njarðvík náði þar með fjórða sætinu aftur af Grindvíkingum.

Grindavík hirti fjórða sætið af Njarðvík fyrr í kvöld þegar liðið lagði Breiðablik að velli á heimavelli. Grindavík vann einmitt Njarðvík í síðustu umferð og kom þar með spennu í baráttuna um fjórða sætið sem gefur sæti í úrslitakeppninni í vor.

Shanna Dacanay skýtur að körfunni.Vísir/Hulda Margrét

Njarðvík ætlaði augljóslega ekki að láta nágranna sína vera lengi fyrir ofan sig í töflunni. Þær voru komnar þrettán stigum yfir eftir fyrsta leikhluta og leiddu 52-32 í hálfleik.

Þær héldu síðan bara áfram í seinni hálfleik. Unnu þriðja leikhluta 29-15 og þann fjórða 25-9. Munurinn varð að lokum hvorki meira né minna en fimmtíu stig, lokatölur 106-56.

Raquel Laneiro skýtur að körfunni í leiknum í kvöld.Vísir/Hulda Margrét

Bríet Sif Hinriksdóttir var stigahæst hjá Njarðvík með 20 stig en Urte Slavickaite skoraði 20 stig fyrir Fjölni.

Að Hlíðarenda tók Valur á móti botnliði ÍR. Leikurinn þar var sömuleiðis ójafn. Valur leiddi allan leikinn og voru 38-17 yfir í hálfleik. Valsliðið er að berjast við Hauka í toppbaráttunni og það var augljóst að þær ætluðu sér ekki að tapa ódýrum stigum í þeirri baráttu.

Í síðari hálfleik var aðeins spurning hversu stór sigur Vals yrði. Þær héldu áfram að hamra járnið á meðan það var heitt og unnu að lokum stórsigur, lokatölur 81-44.

Kiana Johnson skoraði 18 stig fyrir Val og Simone Costa 16 stig. Hjá ÍR var Greeta Uprus stigahæst með 15 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×