Körfubolti

Söguleg stund í vændum í Frystikistunni: Raggi Nat lofar fyrsta þriggja stiga skotinu á ferlinum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ragnar Nathanaelsson er ekki þekktur fyrir sín þriggja stiga skot.
Ragnar Nathanaelsson er ekki þekktur fyrir sín þriggja stiga skot. vísir/bára

Leikur Hamars og Ármanns í 1. deild karla í körfubolta á föstudagskvöldið gæti orðið sögulegur.

Ragnar Nathanaelsson hefur nefnilega lofað að taka sitt fyrsta þriggja stiga skot á ferlinum í leiknum í Frystikistunni á föstudaginn. Hann greindi frá þessu á Twitter.

„Kæru Hvergerðingar, stuðningsmenn Hamars og íþróttaunnendur. Eftir langan feril í meistaraflokk (16 ár) er loksins komið að því. Næst komandi fös, 19:15 í frystikistunni í Hveró, mun ég taka minn fyrsta þriggja stiga skot í leik. Engin vill missa af þessu!“ skrifaði Ragnar.

Ragnar er þekktur fyrir leika listir sínar nálægt körfunni með alla sína 220 sentímetra en sést sjaldan fyrir utan þriggja stiga línuna.

Ragnar sneri aftur til uppeldisfélagsins síns fyrir tímabilið. Í vetur hefur hann skorað 15,0 stig og tekið 16,5 fráköst að meðaltali í leik og er með 60,5 prósent skotnýtingu. Ragnar er frákastahæsti leikmaður 1. deildarinnar.

Hamar er í 2. sæti 1. deildarinnar með 26 stig, tveimur stigum á eftir toppliði Álftaness. Efsta lið deildarinnar kemst beint upp í Subway-deildina en liðin í 2.-5. sæti fara í umspil um hitt lausa sætið í efstu deild.

Auk Hamars hefur hinn 31 árs Ragnar leikið með Þór Þ., Njarðvík, Val, Haukum, Stjörnunni, Sundsvall Dragons í Svíþjóð og Cáceres Ciudad del Baloncesto og Arcos Albacete Basket á Spáni. Hann hefur leikið 49 A-landsleiki fyrir Íslands hönd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×