Innlent

66 um­sækj­endur af 178 sem sögðust börn metnir full­orðnir

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Fylgdarlausum börnum sem sækja um vernd hér á landi hefur fjölgað mjög.
Fylgdarlausum börnum sem sækja um vernd hér á landi hefur fjölgað mjög. Getty

Frá árinu 2014 hafa 178 einstaklingar sótt um alþjóðlega vernd hér á landi sem fylgdarlaus börn. Eftir gagnaöflun og aldursgreiningu voru 78 metnir sem börn en 66 sem fullorðnir.

Þetta kemur fram í svörum dómsmálaráðherra við fyrirspurn Evu Sjafnar Helgadóttur, varaþingmanns Pírata.

Þar segir að tólf af einstaklingunum 178 hefðu orðið 18 ára áður en ákvörðun var tekin í máli þeirra eða forsjáraðili þeirra komið til landsins. Tvö mál voru flokkuð undir „önnur lok“ en annar dró umsókn sína til baka en hinn hvarf. 

Tuttugu mál eru enn í vinnslu.

Af þeim 78 einstaklingum sem fengu afgreiðslu á tímabilinu fengu 55 vernd, fimm mannúðarleyfi en átta var synjað. Fimm fengu önnur málalok og fimm er ólokið. Af þeim 55 sem fengu fernd fengu 19 samþykkta fjölskyldusameiningu.

Í svari við annarri fyrirspurn um fylgdarlaus börn, sem Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, lagði fyrir mennta- og barnamálaráðherra, segir að ráðuneytið vinni nú náið með barnaverndarþjónustu Suðurnesjabæjar, Vinnumálastofnun og Barna- og fjölskyldustofu til að bregðast við stórauknum fjölda fylgdarlausra barna.

„Stuðningur ráðuneytisins hefur meðal annars falist í endurgreiðslu kostnaðar sveitarfélagsins vegna þjónustu við fylgdarlaus börn í sveitarfélaginu sem hefur gert Suðurnesjabæ kleift að bæta við starfskröftum í þjónustuna. Einnig hefur verið fundið húsnæði sem hentar betur sem búsetuúrræði fyrir elstu börnin sem staðsett er þar sem barnaverndarþjónusta Suðurnesjabæjar á auðveldara með að þjónusta þau,“ segir í svarinu.

Þá hafi Barna- og fjölskyldustofa skerpt á verklagi við flutning mála milli sveitarfélaga í samræmi við búsetu barns.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×