Leikjavísir

Dyrunum að Azeroth lokað á nefið á sorgmæddum Kínverjum

Samúel Karl Ólason skrifar
Áætlað er að um þrjár milljónir manna í Kína hafi spilað World of Warcraft.
Áætlað er að um þrjár milljónir manna í Kína hafi spilað World of Warcraft. Actvivision Blizzard

Milljónir kínverskra leikjaspilara hafa misst aðgang að hinum gífurlega vinsæla leik World of Warcraft og öðrum leikjum Activision Blizzard. Slökkt var á vefþjónum fyrirtækisins í Kína á miðnætti eftir að þeir höfðu verið starfræktir í tvo áratugi.

Forsvarsmenn Blizzard og fyrirtækisins NetEase komust ekki að samkomulagi um áframhaldandi samvinnu í Kína og þess vegna komast Kínverjar ekki lengur til Azeroth, söguheims World of Warcraft. Sá leikur hefur notið mjög mikilla vinsælda um heiminn allan um árabil.

Erlendir aðilar verða að vinna með innlendu fyrirtæki samkvæmt kínverskum lögum til að geta boðið upp á tölvuleiki þar í landi.

Blizzard hafði átt í samstarfi við NetEase í um fjórtán ár, samkvæmt frétt Reuters, en forsvarsmenn fyrirtækjanna hafa skipst á ásökunum vegna langvarandi viðræðna um áframhaldandi samstarf.

Grét í alla nótt

Kínverskir spilarar, sem hafa jafnvel spilað Wow um árabil, sitja þó eftir með sárt ennið. Í það minnsta í bili. Sky News segir áætlað að þrjár milljónir Kínverja spili WoW. Einnig er um að ræða vinsæla leiki eins og Diablo, Starcraft, Overwatch og Hearthstone.

Í frétt CNN er vísað í umfjöllun á samfélagsmiðlum í Kína þar sem fólk er miður sín yfir því að komast ekki í leikinn. Einn sagðist hafa brostið í grát og grátið alla nóttina. Annars lýsti WoW sem fyrstu ástinni sinni og sagðist aldrei geta gleymt leiknum.

Í nóvember var send út tilkynning frá Blizzard um að samkomulag hefði ekki náðst og því yrði að loka á aðgang Kínverja að leikjum fyrirtækisins. Þá sögðust forsvarsmenn Blizzard í síðustu viku hafa leitað aftur til Netease um að framlengja samstarfið í hálft ár en þær viðræður hefðu ekki gengið eftir.

Forsvarsmenn Netease sendu þá út eigin tilkynningu þar sem farið var hörðum orðum um hegðun Blizzard-liða en í tilkynningunni stóð að tilboð Blizzard hefði ekki verið nægjanlegt. Þá voru Bandaríkjamennirnir gagnrýndir fyrir það að á sama tíma hafi þeir verið að leita sér að öðrum samstarfsaðilum.

Rifu skrifstofurnar og brutu niður styttu

Enn er ekki ljóst hvað olli því að samningar náðust. Fjölmiðlar ytra hafa sagt frá því að deilurnar hafi bæði snúist um peninga og söfnun persónuupplýsinga.

Deilurnar hafa verið það hatræmar að starfsmenn Netease birtu nýverið myndbönd á netinu þar sem þeir eyðilögðu styttu af orka úr söguheimi WoW sem var fyrir utan skrifstofur Blizzard í Kína. Skrifstofurnar voru einnig rifnar.

Frá Activision Blizzard, sem Microsoft er að reyna að kaupa, berast þær fregnir að enn sé leitað að nýjum samstarfsaðila í Kína.

Saka Tencent um stuld

Tencent, eitt af stærri fyrirtækjum Kína, vinnur að framleiðslu tölvuleiks sem mörgum þykir ansi líkur World of Warcraft og þeirra á meðal eru framleiðendur WoW.

Tencent birti nýverið stiklu fyrir leikinn Tarisland og í kjölfarið hefur fyrirtækið verið sakað um ritstuld. Eins of fram kemur í frétt PCGamesN er margt í stiklu Tarisland sem er keimlíkt World of Warcraft, fyrir utan stílinn, bardagakerfið og andrúmsloftið, sem svipar mjög til WoW, miðað við stikluna.

Í stiklu Tarisland má sjá alls konar kvikindi sem svipa til sambærilegra skeppna í WoW. Þá má einnig sjá persónur sem eru líkar persónum í Wow, farartæki, landslag sem minnir á Azeroth og margt fleira.

Einn af þeim sem sköpuðu World of Warcraft deildi stiklunni á Twitter á dögunum og sagði hana minna sig á eitthvað.

Hér að neðan má sjá stiklu Blizzard fyrir nýjasta aukapakka WoW. Glöggir lesendur taka ef til vill eftir einhverjum líkindum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×