Körfubolti

Arnar getur komið Stjörnu­liðinu í bikar­úr­slit í fimmtu bikar­keppninni í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnar Guðjónsson fagnar hér bikarsigri Stjörnunnar fyrir ári síðan.
Arnar Guðjónsson fagnar hér bikarsigri Stjörnunnar fyrir ári síðan. Vísir/Bára

Arnar Guðjónsson, þjálfari karlaliðs Stjörnunnar í körfubolta, á dag möguleika á því að koma liði sínu í bikarúrslitaleikinn í fimmta sinn á fimm tímabilum sínum sem þjálfari Garðabæjarliðsins.

Stjarnan mætir Keflavík í fyrri undanúrslitaleik dagsins í VÍS bikarnum í Laugardalshöllinni en seinna um kvöldið mætast síðan Valur og Höttur.

Stjörnumenn eru ríkjandi bikarmeistarar eftir sigur á Þór Þorlákshöfn í bikarúrslitaleiknum í Smáranum í fyrra. Það var önnur bikarkeppnina á því tímabili því bikarkeppnin frá árinu á undan var spiluð fyrir tímabilið. Þar komst Stjarnan í úrslitaleikinn en tapaði á móti Njarðvík.

Arnar tók við þjálfun Stjörnuliðsins fyrir 2018-19 tímabilið og Garðbæjarliðið tapaði ekki bikarleik undir hans stjórn fyrstu tvö árin.

Stjarnan varð bikarmeistari 2019 eftir stórsigur á Njarðvík í bikarúrslitaleiknum og varði titilinn árið eftir með því að vinna Grindavík með fjórtán stiga mun í bikarúrslitaleiknum.

Stjarnan vann fyrstu þrettán bikarleikina sína undir stjórn Arnars og hefur nú aftur unnið sjö bikarleiki í röð undir hans stjórn.

Sigurhlutfall Stjörnuliðsins í bikarkeppni undir stjórn Arnars Guðjónssonar er nú 95 prósent eða tuttugu sigrar og eitt tap í 21 leik.

  • Stjarnan í bikarkeppni undir stjórn Arnars Guðjónnssonar:
  • 2018-19 Bikarmeistari (5 sigrar og 0 töp)
  • 2019-20 Bikarmeistari (5 sigrar og 0 töp)
  • 2021 Bikarsilfur (4 sigrar og 1 tap)
  • 2021-22 Bikarmeistari (4 sigrar og 0 töp)
  • 2022-23 Í undanúrslitum (3 sigrar og 0 töp)



Fleiri fréttir

Sjá meira


×