Handbolti

Frábærar neikvæðar fréttir af landsliðinu í handbolta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bjarki Már Elísson og Ómar Ingi Magnússon gátu fagnað niðurstöðum prófanna.
Bjarki Már Elísson og Ómar Ingi Magnússon gátu fagnað niðurstöðum prófanna. HSÍ

Allir leikmenn og starfsmenn íslenska karlalandsliðsins í handbolta fengu góðar fréttir eftir kórónuveirupróf hópsins.

Strákarnir okkar ásamt starfsfólki landsliðsins sem dvelur saman í Hannover í Þýskalandi þurfti að fara í PCR próf í fyrradag vegna þátttöku liðins í HM í handbolta. HSÍ segir frá því á heimasíðu sinni í dag að allir hafi verið neikvæðir sem eru frábærar fréttir.

Alþjóðahandknattleikssambandið hefur sett þátttökuþjóðum á HM í handbolta ákveðnar kröfur er varðar slík smitpróf og ein af þeim var að skima alla áður en haldið væri með liðið til Svíþjóðar.

Íslenska landsliðið lenti mjög illa í því á Evrópumótinu í Ungverjalandi fyrir ári síðan þegar hver leikmaðurinn á fætur öðrum datt út vegna kórónuveirusmits. Íslensku strákarnir voru líka mjög pirraðir yfir því að þurfa að halda áfram að taka þessi próf.

Íslenska liðið spilaði tvo æfingarleiki við Þjóðverjar um helgina en ákvörðun var tekin um að prófa ekki liðið fyrr en eftir þá. Niðurstöður prófanna hafa allar skilað sér og eru strákarnir okkar og allt starfsfólk landsliðsins neikvætt.

Íslenska liðið flýgur síðan yfir til Svíþjóðar í dag. Fyrsti leikur liðsins er á fimmtudaginn er Ísland mætir Portúgal og hefst leikurinn klukkan 19.30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×