Körfubolti

Jón Axel og félagar aftur á sigurbraut

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jón Axel Guðmundsson í leik með íslenska landsliðinu.
Jón Axel Guðmundsson í leik með íslenska landsliðinu. Vísir/Vilhelm

Jón Axel Guðmundsson og félagar hans í Pesaro eru komnir aftur á sigurbraut eftir að liðið vann öruggan 29 stiga sigur gegn Treviso í ítölsku úrvalsdeildinni í körfubolta í kvöld, 101-72.

Jón Axel og félagar höfðu tapað tveimur deildarleikjum í röð fyrir leik kvöldsins og voru því orðnir aðeins tveimur stigum frá því að falla út úr úrslitakeppnissæti.

Eftir erfiða byrjun í leik kvöldsins snéru heimamenn í Pesaro leiknum við í öðrum leikhluta og leiddu með einu stigi þegar liðin gengu til búningsherbergja, 41-40.

Heimamenn tóku svo öll völd á vellinum í þriðja leikhluta þar sem liðið skoraði 32 stig gegn aðeins 14 stigum gestanna. Fjórði leikhlutinn varð því hálfgert formsatriði og liðið vann að lokum öruggan 29 stiga sigur, 101-72.

Jón Axel skoraði átta stig fyrir Pesaro í leik kvöldsins, tók eitt frákast og gaf eina stoðsendingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×