Handbolti

Lærði kínversku og smyglaði Red Bull inn í Ólympíuþorpið fyrir Hreiðar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ólympíleikarnir í Peking 2008 íslenska landsliðið í handbolta vann silfur
Ólympíleikarnir í Peking 2008 íslenska landsliðið í handbolta vann silfur

Bjarni Fritzson lærði nokkur orð í kínversku á Ólympíuleikunum í Peking 2008 og smyglaði Red Bull orkudrykkjum inn í Ólympíuþorpið.

Bjarni var gestur fimmta þáttar Stórasta landsins, hlaðvarpsþáttaraðar Stefáns Árna Pálssonar um framgöngu íslenska karlalandsliðsins í handbolta á Ólympíuleikunum í Peking.

Bjarni var fimmtándi maður í íslenska hópnum og spilaði ekki mínútu á mótinu. Hann gisti ekki í Ólympíuþorpinu og þurfti að vera farinn þaðan á kvöldin. Hann lét samt til sín taka og naut þess að vera á Ólympíuleikunum.

„Því ég var þessi fimmtándi maður hafði ég ekki fullan aðgang að matartjaldinu. Andri [Stefánsson], sem er núna framkvæmdastjóri ÍSÍ, lét mig alltaf hafa matarmiða og ég var með þá eins og eitthvað skólabarn,“ sagði Bjarni.

„Ég fékk einhverja tuttugu miða og nennti ekki alltaf að vera að pönkast í honum þannig að ég byrjaði að reyna að smygla mér inn í matartjaldið til að fara sparlega með miðana. Þannig ég lærði smá kínversku. Því alltaf þegar ég sagði eitthvað hneigði starfsfólkið sig og kíkti ekkert á spjaldið mitt.“

Bjarni kom líka góðvini sínum, markverðinum Hreiðari Levý Guðmundsson, til aðstoðar þegar orkudrykkjarþörf hans varð yfirþyrmandi.

„Hann var búinn að venja sig á að drekka alltaf Red Bull fyrir leik en það var ekki til í þorpinu. Ég var sá eini sem fór út úr þorpinu og eitt kvöldið þegar ég fór til baka þvældist ég um til að leita að matvöruverslun til að finna Red Bull,“ sagði Bjarni.

„Ég fann hann svo fyrir þennan Egyptaleik,“ sagði Bjarni en sá leikur var til umfjöllunar í fimmta þætti Stórasta landsins. Hann endaði með jafntefli, 32-32.

Hlusta má á fimmta þátt Stórasta landsins í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×