Sport

Dæmdir í samtals átta ára bann fyrir lyfjamisferli

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mark Otieno má ekki keppa aftur fyrr en næsta sumar.
Mark Otieno má ekki keppa aftur fyrr en næsta sumar. getty/Cameron Spencer

Þrír kenískir hlauparar hafa verið dæmdir í samtals átta ára keppnisbann fyrir lyfjamisferli.

Þetta eru maraþon-hlaupararnir Alice Jepkemboi Kimutai og Johnstone Kibet Maiyo og spretthlauparinn Mark Otieno. Þeir tveir fyrstnefndu fengu báðir þriggja ára bann en sá síðastnefndi tveggja ára bann.

Otieno féll á lyfjaprófi áður en hann átti að keppa í undanriðlum í hundrað metra hlaupi á Ólympíuleikunum í Tókýó í fyrra og fékk þar af leiðandi ekki að keppa. 

Anabólíski sterinn methasterone greindist í sýni hans. Bann Otienos tók gildi á Ólympíuleikunum og gildir fram í júlí á næsta ári.

Bönn þeirra Kimutais og Maiyos tóku gildi í síðasta mánuði. Í sýni þess fyrrnefnda greindist testósterón og erythropoietin í sýni þess síðarnefnda.

Rúmlega fimmtíu kenískir íþróttamenn hafa fallið á lyfjaprófi að undanförnu. Kenía slapp við refsingu frá alþjóða frjálsíþróttasambandinu eftir að hafa heitið því að leggja baráttunni gegn ólöglegri lyfjanotkun lið með 25 milljóna Bandaríkjadala fjárframlagi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×