Skoðun

Opið bréf til Dags B. Eggertssonar

Hlynur Már Vilhjálmsson skrifar

Sæll Dagur.

Ég sendi þér þetta bréf sem kjósandi þinn í Reykjavík.

Málið varðar stöðu heimilislausra í Reykjavík en í dag bárust fregnir þess efnis að loka ætti Gistiskýlinu á Granda yfir daginn í miðjum snjóstormi. Ragnar Erling Hermannsson, notandi þjónustunnar í Gistiskýlinu, greindi frá því í dag. Þetta vekur óneitanlega upp þá tilfinningu að Reykjavík sé með þessu að bregðast lögbundinni þjónustu sinni, innan síns sveitarfélags. Ég vill leggja þetta upp fyrir þig í samhengi við baráttu fatlaðra fyrir mannréttindum á Íslandi.

2019 skrifaði ég grein í Kjarnann vegna mannréttindabrota sem fatlaður maður í Mosfellsbæ bjó við í nokkur ár. Sveitarfélagið bar við sig fjármagnsskorti sem ástæðu þess að þessu væri ekki sinnt. Ég tók þá afsökun ekki í mál og hvatti til mótmæla gagnvart bæjaryfirvöldum Mosfellsbæjar. Það sama verður að gilda gagnvart mannréttindum heimilislausra í Reykjavík. Reykjavíkurborg ber skylda til þess að þjónusta íbúa sína og veita þeim grunnþjónustu, þá sérstaklega þeim sem lifa við neyð. Já, sveitarfélögin eru að glíma við ákveðinn fjármagnsskort sem er m.a. tilkominn vegna samstarfsviljaskorts frá Fjármálaráðuneytinu gagnvart sveitarfélögum landsins og já það skiptir ekki máli því að peningar skipta ekki meira máli en landsmenn, eins og Ragnar réttilega bendir á. Við erum rík þjóð en ekki fátæk og getum leikandi veitt heimilislausum landsmönnum sem og öllum öðrum landsmönnum virðingu og mannréttindi, ef við erum ákveðin að við viljum það. Og það sem Ragnar er líka svo duglegur við að benda á er hans neyð og neyð annarra heimilislausra Reykvíkinga og á hann þakkir skildar fyrir að vekja athygli á þeirri neyð. Það sem er líka rétt hjá Ragnari er að hann á ekki að þurfa að vera að standa í þessari baráttu fyrir hans öryggi og öryggi annarra heimilislausra.

Sú staðreynd að íhugað hafi verið að loka Gistiskýlinu yfir daginn í dag, í snjóstormi, þýðir einfaldlega að stjórnvöld Reykjavíkurborgar eru að bregðast þjónustuskyldu sinni við heimilislausa. Ég geri sem kjósandi þá kröfu á þig að hlusta á og berjast fyrir heimilislausa í neyð innan sveitarfélagsins sem þú ert borgarfulltrúi í, án tafar. Það getur þú t.d. gert með því að taka þessi mál upp sérstaklega á dagskrá við fyrsta tækifæri í borgarstjórn og lýsa nákvæmlega þínum hugmyndum til að tryggja velferð heimilislausra í Reykjavík til frambúðar.

Með bestu kveðju,

Hlynur Már Vilhjálmsson

Höfundur er baráttumaður fyrir velferð og réttlæti.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×