Körfubolti

Benedikt Guðmundsson: Meiðsladraugur yfir Njarðvík

Árni Jóhannsson skrifar
Þjálfari Njarðvíkinga Benedikt Guðmundsson náði ekki að kveikja nógu vel í sínum mönnum.
Þjálfari Njarðvíkinga Benedikt Guðmundsson náði ekki að kveikja nógu vel í sínum mönnum. Vísir / Diego

Benedikt Guðmundsson, þjálfari Njarðvíkinga, var sammála blaðamanni um að leikurinn við Val í kvöld hafi ekki verið fallegur en hann gat verið stoltur af sínum mönnum.  Leikurinn endaði með sigri Valsmanna 88-75 sem sitja í öðru sæti en Njarðvíkingar verða í því fjórða yfir jólin.

„Nei þetta var ekki fallegt ég er sammála því og ég var að segja það við einhvern hérna að þetta hafi verið með því þreyttara sem ég hef séð. Sýndist bæði lið vera ca. 40% í orku en mér fannst við samt reyna og svo sprungum við á limminu í restina.“

Benedikt var spurður að því hvort hann hafi ekki getað gert eitthvað til að kreista örlítið meira út úr sínum mönnum.

„Jú jú, það er örugglega eitthvað sem við gátum gert meira. Við fundum ekki leiðir núna og eins svekktur og ég er með þennan leik þá langar mig  að hrósa mínu liði bara hvernig við erum búnir að tækla þetta mótlæti sem við erum að lenda í. Það er einhver meiðsladraugur yfir Njarðvík núna, bæði karla og kvenna megin, en samt förum við í þriggja daga jólafrí í fjórða sæti og ég verð að hrósa mínu liði fyrir það.“

Það er því kærkomið að fá frí en Njarðvíkingar voru ekki nema níu á skýrslu í kvöld.

„Klárlega og það mætti vera lengra. Við nýtum þessa þrjá fjóra daga frá æfingum núna og vonandi náum við mönnum heilum og þeir verða ferskir fyrir umferðinga á milli jóla og nýárs.“

Ef við tökum stöðuna eftir 10 leiki gætu Njarðvíkingar þá verið sáttir við stigatöfluna miðað við ástandið á hópnum og meiðsladrauginn sem vofir yfir?

„Það eru örugglega skiptar skoðanir á því. Eins og deildin er núna þá tek ég fjórða sætið miðað við að við höfum ekki verið með full mannað lið síðan ég veit ekki hvenær. Ég ætla að taka glasið hálf fullt núna.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×