Körfubolti

Griner þakkar Biden og stefnir á að spila á næstu leik­tíð

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Brittney Griner og eiginkona hennar, Cherelle, féllust í faðma þegar Griner skilaði sér loks heim.
Brittney Griner og eiginkona hennar, Cherelle, féllust í faðma þegar Griner skilaði sér loks heim. AP News

Brittney Griner þakkaði Bandaríkjaforseta þegar hún tjáði sig í fyrsta skipti opinberlega eftir að vera loks komin heim eftir tíu mánuði í rússnesku fangelsi. Þá stefnir hún á að spila með Phoenix Mercury í WNBA deildinni í körfubolta á næstu leiktíð.

Hin 32 ára gamla Griner var handtekinn á flugvelli í Rússlandi í febrúar. Var henni gert að sök að vera með hassolíu í fórum sínum. Var hún í haldi yfirvalda þar í landi þangað til hún var færð fyrir dómara. Sá dæmdi Griner í níu ára fangelsi.

Eftir margra mánaða samningaviðræður komust ríkisstjórnir Bandaríkjanna og Rússlands að samkomulagi. Griner fékk að fara heim en í staðinn fékk Viktor Bout - Sölumaður dauðans - að fara heim til Rússlands.

„Það er gott að vera komin heim. Síðustu tíu mánuðir hafa verið stanslaus barátta, ég þurfti að grafa djúpt og halda í trúnna. Það var ástin frá ykkur sem hélt mér gangandi. Frá dýpstu hjartarótum, takk fyrir alla hjálpina,“ sagði Griner á Instagram-síðu sinni á föstudag. Var það hennar fyrsta opinbera yfirlýsing síðan hún sneri heim.

Griner þakkaði Joe Biden, Bandaríkjaforseta, sérstaklega. Sagðist hún tilbúin að leggja sitt að mörkum til að koma Bandaríkjamönnum sem sitja í fangelsi erlendis heim til sín. 

Að endingu staðfesti Griner að hún stefndi á að spila í WNBA deildinni á næsta tímabili. Það hefst þann 19. maí næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×