Körfubolti

Syrtir í álinn hjá meisturunum: Curry frá næstu vikurnar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Stephen Curry mun ekki spila næstu vikurnar.
Stephen Curry mun ekki spila næstu vikurnar. AP Photo/Scott Kinser

NBA meistarar Golden State Warriors verða án síns besta manns næstu tvær vikurnar hið minnsta þar sem Stephen Curry er meiddur á öxl. Þetta er mikið áfall fyrir liðið sem hefur ekki enn náð að sýna sínar bestu hliðar á tímabilinu.

Warriors hafa átt erfitt uppdráttar það sem af er tímabili í NBA deildinni í körfubolta. Hinn síkáti Draymond Green ákvað að rota liðsfélaga sinn Jordan Poole í október og virðist sem það atvik hafi dregið dilk á eftir sér.

Stríðsmennirnir hafa varla unnið útileik og ekki verður verkefnið auðveldara með Curry á hliðarlínunni en hann meiddist í tapinu gegn Indiana Pacers á dögunum. Leikstjórnandinn meiddist á vinstri öxl og mun að lágmarki vera frá í tvær vikur.

Það er þó talið að hann gæti verið töluvert lengur frá keppni. Curry segist feginn að sleppa við aðgerð en sem stendur er alls óvíst hvenær hann snýr aftur á gólfið. Curry hefur að venju verið besti leikmaður Golden State á leiktíðinni. Er hann með að meðaltali 30 stig, 6.8 stoðsendingar og 6.6 fráköst í leik.

Stríðsmennirnir hafa aðeins unnið 14 af 29 leikjum sínum til þessa á leiktíðinni og sitja sem stendur í 10. sæti Vesturdeildar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×