Handbolti

Lemstraður eftir ferilinn og þarf að fara í mjaðmaskipti

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ásgeir Örn Hallgrímsson reynir skot að marki Frakka í úrslitaleik Ólympíuleikanna í Peking 2008.
Ásgeir Örn Hallgrímsson reynir skot að marki Frakka í úrslitaleik Ólympíuleikanna í Peking 2008. vísir/vilhelm

Ásgeir Örn Hallgrímsson er allur lurkum laminn eftir handboltaferilinn. Hans bíða mjaðmaskipti á næsta ári.

Ásgeir var gestur þriðja þáttar Stórasta landsins, hlaðvarpsþáttaraðar Stefáns Árna Pálssonar um framgöngu íslenska handboltalandsliðsins á Ólympíuleikunum í Peking 2008.

Ásgeir átti langan feril. Hann hóf og lauk ferlinum með Haukum en í millitíðinni lék hann í þrettán ár erlendis. Þá er hann einn leikjahæsti leikmaður íslenska landsliðsins frá upphafi. Líkami Ásgeirs er lemstraður eftir rúmlega tuttugu ára feril sem handboltamaður.

„Skrokkurinn er mjög slæmur í rauninni. Þegar ég kom heim var ég með mjög sterk sliteinkenni í mjöðminni. Það hefur mikil áhrif á hreyfigetuna í mjöðminni og liðleikinn í henni var nánast enginn. Þetta var orðið helvítis basl undir lokin,“ sagði Ásgeir. „Ég átti ekki tommu eftir og er rosa feginn þegar ég hætti og hefði kannski átt að gera það ári fyrr.“

Vegna mjaðmameiðslanna þarf Ásgeir að fara í mjaðmaskipti. Sú aðgerð bíður hans á næsta ári.

„Ég sé ekkert eftir þessu. Ég hefði mögulega getað verið með þessi einkenni ef ég hefði verið skrifstofumaður. En mögulega kom þetta fyrr fram því ég var atvinnumaður í íþróttum. Ég er að fara að í skipta um mjöðm á næsta ári,“ sagði Ásgeir.

Þrátt fyrir öll þau áhrif sem lemstraður skrokkur hefur á daglegt líf Ásgeirs var enginn vafi í hans huga er Stefán Árni spurði hann hvort þetta hefði verið þess virði.

„Já, klárt. Ég sé ekki neinu nema að kannski hefði maður stundum átt að vera skynsamari og hvíla meira. En mér fannst ég alltaf geta klárað eina æfingu í viðbót,“ sagði Ásgeir.

Hlusta má á þriðja þátt Stórasta landsins í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×