Körfubolti

Máttugur Mitchell og glæsi­legur Dončić leiddu lið sín til sigurs

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Leikmenn Los Angeles Lakers áttu engin svör gegn Donavan Mitchell í nótt.
Leikmenn Los Angeles Lakers áttu engin svör gegn Donavan Mitchell í nótt. Jason Miller/Getty Images

Aðeins fóru þrír leikir fram í NBA deildinni í körfubolta í nótt. Segja má að Donavan Mitchell, leikmaður Cleveland Cavaliers, og Luka Dončić, leikmaður Dallas Mavericks, hafi stolið senunni.

LeBron James var mættur á sinn gamla heimavöll er Cleveland tók á móti Los Angeles Lakers. Gestirnir hafa verið að ganga í gegnum endurnýjun lífdaga ef svo má að orði komast og voru til alls líklegir fyrir leik næturinnar.

Það var hins vegar snemma ljóst að Anthony Davis, sem hefur verið meginástæða þess að Lakers virðist vera rétta úr kútnum, gengi ekki heill til skógar. Hann entist í aðeins átta mínútur en samkvæmt fréttamiðlum vestanhafs var hann einfaldlega veikur og gat því ekki spilað.

Án hans áttu leikmenn Lakers erfitt uppdráttar og tókst þeim engan veginn að beisla áðurnefndan Mitchell. Segja má að bestu þrír leikmenn Cleveland hafi allir leikið lausum hala í 14 stiga sigri liðsins, lokatölur 116-102.

Mitchell fór fyrir sínum mönnum en hann skoraði 43 stig, tók 6 fráköst og gaf 5 stoðsendingar. Þar á eftir kom Jarrett Allen með 24 stig og 11 fráköst á meðan Darius Garland skoraði 21 stig og gaf 11 stoðsendingar.

Hjá Lakers var LeBron stigahæstur með 21 stig ásamt því að taka 17 fráköst. Þar á eftir kom Thomas Bryant með 19 stig á meðan Dennis Schröder og Russell Westbrook skoruðu 16 stig hvor.

Leikur Denver Nuggets og Dallas var sannkallaður háspennuleikur þar sem Dallas tryggði sér sigurinn í blálokin, lokatölur þar 115-116.

Dončić var að venju allt í öllu hjá Dallas og endaði með þrefalda tvennu, hans sjötta á leiktíðinni. Ásamt því að skora 22 stig þá gaf hann 12 stoðsendingar og tók 10 fráköst. Hann var þó ekki stigahæstur í liði Dallas þar sem Tim Hardaway Jr. skoraði 29 stig.

Hjá Denver var Aaron Gordon stigahæstur með 27 stig á meðan Nikola Jokić skoraði 19 stig, tók 8 fráköst og gaf 8 stoðsendingar.

Að lokum vann Detroit Pistons óvæntan stórsigur á Miami Heat, lokatölur 116-96 Detroit í vil. Bojan Bogdanović fór fyrir sínum mönnum í Pistons en hann skoraði 31 stig í liði þar sem alls sex leikmenn skoruðu 10 stig eða meira. Tyler Herro var stigahæstur í liði Heat með 34 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×