Skoðun

Öndum með nefinu

Guðmundur Ingi Þóroddsson skrifar

Fregnir af því að dómsmálaráðherra hyggist efla öryggisbúnað fangavarða eru löngu tímabærar og óskandi að stéttin fái bæði búnaðinn og nauðsynlega þjálfun auk þess sem einnig má fara uppfæra hinar ýmsu verklagsreglur innan fangelsanna. Aftur á móti er þessi endurtekna umræða um að rafvæða þurfi vopn allra þeirra sem einhvers staðar standa vörð á villigötum.

Af mínum samtölum við fangaverði er ljóst að afar þröngur hópur þeirra hefur hafið þessa umræðu og þá í framhaldi af því að tilraun verði gerð með að rafvæða vopnabúr lögreglumanna. Aftur á móti er mikill meirihluti fangavarða á móti þessari hugmynd. Flestir myndu þeir nú bara þiggja hærri laun. Þess ber að geta að fangaverðir á Norðurlöndum bera ekki rafvopn og að mínu mati er fjarstæðukennt að halda því fram að ástandið sé verra hér á landi.

Sannleikurinn er sá að ofbeldi í fangelsum hefur ekki nema upp að því marki að sífellt fleiri andlega veikir einstaklingar eru vistaðir í fangelsum í stað viðeigandi úrræða. Þetta eru einstaklingar sem eiga ekki að vera í fangelsi, þrífast ekki þar og einangrunin eykur gríðarlega á vanda þeirra. Það að fangavörðum verði heimilt að valda umræddum einstaklingum miklum skaða með rafvopnum er stjarnfræðilega röng nálgun.

Leggjum fjármagn í fangelsiskerfið, komum á fót úrræðum fyrir andlega veikt fólk sem hefur brotið af sér og hækkum laun fangavarða. Þá held ég að það muni skapast þokkaleg ró og sátt um annars mjög vængbrotið kerfi.

Höfundur er formaður Afstöðu, félags fanga og annarra áhugamanna um fangelsismál og betrun.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.