Handbolti

Þórir segir íslenskan handbolta á frábærum stað

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þórir Hergeirsson gerði Noreg að Evrópumeisturum í fimmta sinn um síðustu helgi.
Þórir Hergeirsson gerði Noreg að Evrópumeisturum í fimmta sinn um síðustu helgi. epa/Zsolt Czegledi

Nýkrýndi Evrópumeistarinn Þórir Hergeirsson er afar hrifinn af því sem er að gerast hjá íslensku handboltalandsliðunum.

„Ég fylgist eins mikið og ég get með íslenskum handbolta og hef mikla gleði af því. Ég sæki heilmikinn innblástur í íslenskan handbolta og hef alltaf gert,“ sagði Þórir í samtali við Vísi.

Karlalandslið Íslands endaði í 6. sæti á EM í byrjun þessa árs og þykir líklegt til afreka á HM í janúar. Þórir segir mikilvægt að Guðmundur Guðmundsson hafi fengið tíma til að byggja liðið upp.

„Karlalandsliðið er á frábærum stað og þróunin þar er ótrúlega flott, við eigum mikið af góðum leikmönnum og framtíðin er björt,“ sagði Þórir.

„Það var mikilvægt að menn voru þolinmóðir. Það var óþolinmæði á nokkrum mótum þegar verið var að byggja upp nýtt lið. Eins og ég hef alltaf sagt þá þarf að gefa þessu nokkur ár og þetta lítur rosalega vel út núna.“

Klippa: Ánægður með stöðu íslensks handbolta

Þórir segir kvennalandslið Íslands einnig vera á réttri leið undir stjórn Arnars Péturssonar.

„Mér finnst Arnar og teymið hans hafa unnið mjög góða vinnu. Það er líka verið að vinna góða vinnu í yngri flokkunum. Mér finnst kvennaboltinn vera á uppleið,“ sagði Þórir.

Norðmenn eru með svokallað rekrut landslið, eins konar B-landslið eða þróunarlandslið sem er brú milli yngri landsliðanna og A-landsliðsins. Það lið kemur til Íslands á næsta ári, um mánaðarmótin febrúar/mars, og spilar leiki við íslenska liðið.


Tengdar fréttir

„Er ekkert sérstaklega góður í að gleðjast“

Þrátt fyrir að vera sigursælasti handboltaþjálfari landsliðssögunnar er Þórir Hergeirsson enn að læra að gleðjast yfir titlum. Hann segist þó vera að taka framförum á því sviði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×