Handbolti

„Algjör nauðsyn að leikmenn séu í toppstandi, annars komast þeir ekki í liðið“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þórir Hergeirsson gerði Noreg að Evrópumeisturum í fimmta sinn um helgina.
Þórir Hergeirsson gerði Noreg að Evrópumeisturum í fimmta sinn um helgina. epa/ANTONIO BAT

Öllum sem fylgdust EM í handbolta kvenna mátti ljóst vera að norska landsliðið er afar sterkt á svellinu, bæði andlega og líkamlega, og sérstaklega þegar líða tekur á leiki.

Það sást bersýnilega í undanúrslita- og úrslitaleiknum. Noregur var einu marki yfir í hálfleik gegn Frakklandi í undanúrslitunum, 12-11, en vann seinni hálfleikinn, 16-9, og leikinn, 28-20.

Í úrslitaleiknum gegn Danmörku var Noregur undir lengst af en sneri dæminu sér í vil í seinni hálfleik og vann á endanum tveggja marka sigur, 25-27. Norðmenn töpuðu fyrir Dönum, 29-31, í lokaleik sínum í milliriðlinum en það kom ekki fyrir aftur.

„Ég er svolítið þannig samansettur að ég hef litlar áhyggjur af hlutum. Ég reyni að einblína á að það sem maður nær að gera sjálfur. Við spiluðum ekki góðan leik gegn Dönum í milliriðli. Við vorum í vandræðum í vörninni og náðum ekki markvörðunum okkar með heldur. Við skoruðum nóg af mörkum og það var allt í lagi,“ sagði Þórir í samtali við Vísi.

„Við kíktum vel á þann leik fyrir úrslitaleikinn og tókum fyrir 2-3 atriði sem okkur fannst við ekki vera að gera nógu vel. Við bættum það og það virkaði allt í úrslitaleiknum og var aðalgrunnurinn að því að við unnum þann leik. Það var ekkert gefið. Danirnir eru með hörkulið og verið í rosa sókn síðustu árin. Þetta lið þeirra hefur spilað saman á mörgum mótum á síðustu árum og alltaf tekið ný skref.“

Sem fyrr voru Danir með frumkvæðið lengi vel í úrslitaleiknum en um miðjan seinni hálfleik sneru Norðmenn dæminu sér í vil.

„Vörnin og markvarslan voru heilt yfir mjög góð. Sóknin var slök í fyrri hálfleik, sérstaklega fyrsta korterið. Það var stress í þessu og við strönduðum á þessari mjög líkamlega sterku vörn þeirra. Við komumst ekki í nógu góð færi,“ sagði Þórir.

„Í seinni hálfleik fannst mér við spila mjög vel í sókninni og komumst í mörg góð færi í byrjun. Þetta var meira spurning um skotnýtingu. Við klikkuðum á góðum færum.“

Þórir segir að reynsla norska liðsins, og sérstaklega í leikjum gegn Danmörku, hafi vegið þungt í úrslitaleiknum.

„Mér fannst við vera með þetta. Það var bara spurning hvenær þetta myndi tikka inn. Þegar við fórum að nýta færin jöfnuðum við þetta,“ sagði Þórir.

„Mér fannst þær verða hræddar, fóru varlega og voru orðnar líkamlega þreyttar og kannski sálarlega líka. Við höfum snúið mörgum leikjum gegn þeim síðustu árin. Verið undir en yfirleitt náð að snúa leikjunum okkur í vil. Þannig allir höfðu trú á þessu allan tímann.“

Þórir segir að Norðmenn leggi mikla áherslu á líkamlegt atgervi og að leikmenn beri sjálfir stærsta ábyrgð á því að vera í góðu formi.

„Við viljum að leikmenn séu færir til að spila 8-9 leiki á stórmótum. Handboltinn er orðinn geysilega líkamlegur. Þetta eru endurteknar árásir í vörn og sókn og mikill hraði þannig að það er algjör nauðsyn að leikmenn séu í toppstandi, annars komast þeir ekki í liðið,“ sagði Þórir.

„Sú krafa er á öllum og þess vegna leggjum við mikla áherslu á að kenna ungum leikmönnum að sjá um sig sjálfar og vera í góðu formi allt árið. Það er fyrst og fremst á þeirra ábyrgð og svo fá þeir hjálp við það frá fagfólki sem kann þetta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×